Ritreglur
Auglýsingar mennta- og menningarmálaráðuneytis nr. 695/2016 og 800/2018 með leiðréttingum.
Efni
3. é, je og e
4. Sérhljóðar á undan ng og nk
5. Sérhljóðar á undan gi og gj
6. y, ý, ey
7. f eða v
8. g
9. hv og kv
10. j
11. m og mm
12. n og nn
13. ps, pt, ppt eða fs, ft
14. r og rr
15. s og ss
16. rl og ll; rn og nn; sl og sn
17. x, gs, ks
18. Einn eða fleiri samhljóðar
28. Tilvitnunarmerki (gæsalappir)
31. Úrfellingarmerki, úrfellingarpunktar
32. Afstaða tilvitnunarmerkja og sviga til annarra greinarmerkja
1. Stór og lítill stafur
1.1 Lítill stafur og stór: aðalregla
Lítinn staf skal að jafnaði nota í rituðu máli. Stóran staf skal þó rita, einkum í upphafi orðs, samkvæmt sérstökum reglum sem lýst er í § 1.2. Um lítinn staf er nánar fjallað í § 1.3.
1.2 Stór stafur
1.2.1 Stór stafur er ritaður í upphafi máls
Stór stafur er alltaf ritaður í upphafi máls og í nýrri málsgrein á eftir punkti. Á eftir upphrópunarmerki, spurningarmerki og tvípunkti er stundum stór stafur, en aldrei á eftir kommu eða semíkommu, eins og ráða má af eftirfarandi dæmum og skýringum (sjá nánar um greinarmerki í reglum um greinarmerki).
Hann er kominn. Það var nú gott. [Upphaf máls og ný málsgrein á eftir punkti.]
Er hann kominn? Það var nú gott. [Ný málsgrein á eftir spurningarmerki.]
Hann er kominn! Það var nú gott. [Ný málsgrein á eftir upphrópunarmerki.]
Ég sagði: „Það var nú gott.“ [Bein tilvitnun á eftir tvípunkti.]
Loks var þetta ákveðið: Óskað verður eftir nauðasamningum hið fyrsta. [Sjálfstæð málsgrein á eftir tvípunkti.]
Hann er seinheppinn eins og fyrri daginn: missir af flugvélinni og tefst í þrjá daga. [Ófullkomin málsgrein á eftir tvípunkti.]
Ég þarf að kaupa þrennt: mjólk, brauð og smjör. [Upptalning á eftir tvípunkti.]
„Það var nú gott,“ sagði ég. [Á eftir beinni tilvitnun, innan sömu málsgreinar.]
„Er hann kominn?“ spurði ég. [Á eftir beinni tilvitnun, innan sömu málsgreinar.]
„Hann er kominn!“ kallaði hún. [Á eftir beinni tilvitnun, innan sömu málsgreinar.]
1.2.2 Stór stafur er ritaður í upphafi sérnafns
1.2.2.1 Sérnöfn eru heiti sem tilteknir einstaklingar eða eintök af einhverri tegund bera, einkum menn og aðrar verur, staðir, stofnanir og ýmis mannanna verk, eins og hús, listaverk og hugverk. Sérnöfn eru rituð með stórum upphafsstaf.
Ef sérnafn er fleiri en eitt orð er aðeins stór upphafsstafur í fyrsta orðinu, til dæmis Austurlönd nær, Rauði krossinn, Hið íslenska bókmenntafélag, nema á eftir fari sérnafn eða sérnöfn, til dæmis Fríverslunarsamtök Evrópu, Hæstiréttur Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fleiri nöfn af þessum toga eru í dæmum hér á eftir.
Þegar sérnöfn eru tvíliðuð og liðirnir tengdir með bandstriki eru báðir liðirnir með stórum upphafsstaf, til dæmis Norður-Kórea, Litli-Jón, Fjalla-Eyvindur, sbr. § 1.2.4 b–c.
1.2.2.2 Nöfn manna, dýra og annarra vera eru sérnöfn, til dæmis:
a. Nöfn manna, svo sem skírnarnöfn, millinöfn, föðurnöfn, móðurnöfn og ættarnöfn, einnig gælunöfn og stytt nöfn:
• Ari, Bryndís, Dan, Guðmundur, Guðm. (Guðmundur), Gummi, Guðrún, Helguson, Kvaran, Ólafur, Sigurðardóttir, Óli, Vigga
> [§ 1.3.2; § 1.2.4 b–c] Viðurnefni sem bætt er aftan við sérnöfn manna eða annarra vera eru rituð með litlum upphafsstaf, til dæmis Ari fróði, Þuríður formaður, nema viðurnefnin falli sjálf undir reglu um stóran staf, til dæmis Einar Þveræingur, Sigurður Fáfnisbani. Ef viðurnefni er skeytt framan við sérnafn eru bæði orðin rituð með stórum upphafsstaf og tengd með bandstriki, til dæmis Litli-Jón, Svarti-Pétur, Ástar-Brandur, Fjalla-Eyvindur.
b. Eiginnöfn guða og guðlegra vera, álfa, huldufólks, trölla, vætta, forynja, drauga og þess háttar:
• Gilitrutt, Glámur, Jesús, Kristur, Loki, Óðinn, Satan, Skírnir
c. Eiginnöfn dýra:
• Golsa, Skjalda, Skjóni, Snati
d. Nöfn hluta og hugmynda sem eru persónugerð (til dæmis í skáldskap) má rita með stórum staf:
• úti blés Kári af öllu afli, helstu persónur sögunnar voru Þekkingin og Ástin
1.2.2.3 Nöfn á einstökum stöðum eru sérnöfn, til dæmis:
a. Örnefni hvers konar, svo sem nöfn á fjöllum og dölum, söndum og hraunum, leitum og lautum, vegum og öðrum samgönguleiðum, ám og vötnum, flóum og fjörðum, fiskimiðum, höfum og hafsvæðum, löndum, landshlutum, svæðum og heimsálfum og þess háttar.
• Austurland, Ásgarður, Eden, Evrópa, Fjallabaksleið, Háaleiti, Hekla, Húnaflói, Hvítá, Iðavellir, Ísland, Kyrrahaf, Langidalur, Mjóifjörður, Mývatn, Ódáðahraun, Rauðisandur, Smugan, Strandir, Suðurskautslandið (heimsálfa)
> [§ 1.3.6.3] Örnefni geta átt sér samhljóða samheiti, oft lýsandi (sbr. bærinn Eyri stendur á eyri). Oft þarf að ráða af samhengi hvort orðið er sérnafn eða ekki og stundum þarf að þekkja til staðhátta. Valfrjálst er hvort ritað er suðurheimskaut eða Suðurheimskaut, norðurpóll eða Norðurpóll.
b. Nöfn á byggð og setri, svo sem héruðum, sveitum, sveitarfélögum, borgum, borgar- eða bæjarhverfum, götum og torgum, kaupstöðum, kauptúnum, þorpum, bújörðum, eyðibýlum, bústöðum, aðsetri, görðum, svæðum.
• Austurstræti, Hafnir, Hliðskjálf, Hof, Kópavogur, Lækjartorg, Oddeyri, Reykjavík, Skútustaðir, Súðavík, Útmannasveit, Valhöll, Vesturbyggð, Vesturbær, Vogahverfið
Athugið. Venja er að rita himnaríki og helvíti með litlum upphafsstaf.
> [§ 1.3.6.3 b] Ef heitið er samsett orð og síðari liðurinn samnafn (til dæmis fell, tún) er hann ritaður áfastur (án bandstriks), jafnvel þó að fyrri liðurinn beygist, til dæmis Fornihvammur, Langisjór, Miklabraut. Ekki er þó alltaf augljóst hvort síðari liður er samnafn eða sérnafn, einkum þegar hann gæti verið lýsandi heiti á landslagi (samnafn, til dæmis grund) eða heiti bæjar (sérnafn, til dæmis Grund).
c. Nöfn á einstökum stjörnum, vetrarbrautum, geimþokum, samstirnum og stjörnumerkjum:
• Mars, Merkúr, Venus, Svelgþokan, Kolapokinn, Karlsvagninn, Stóra Magellanskýið, Vatnsberinn
Athugið. Íslensk heiti himintungla í okkar sólkerfi eru rituð með litlum upphafsstaf: sól, sunna, jörð, tungl og máni. Jörðin er þó stundum rituð með stórum upphafsstaf í upptalningu á reikistjörnum: Merkúr, Venus, Jörð, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus. Pólstjarnan er sérheiti en getur einnig verið samnafn í merkingunni ‘stjarnan sem sést yfir norðurpólnum’. Heiti stjörnumerkja í stjörnuspeki eru með litlum staf: hrútsmerkið.
1.2.2.4 Nöfn á ýmsum hlutum og öðrum verkum manna eru sérnöfn. Þar á meðal eru:
a. Nöfn á einstökum húsum eða mannvirkjum:
• Arnarhváll, Glerárkirkja, Gullinbrú, Norræna húsið, Sjalli(nn), Skjaldborg, Skólavarða(n)
b. Nöfn á einstökum farartækjum, svo sem skipum, bátum, flugvélum, bílum og þess háttar:
• Baldur, Fjallafari, Frúin, Geisli, Gestur frá Vigur, Gnúpur, Gullfoss, Herjólfur, Höfrungur, Norræna, Storkurinn, Þristurinn
c. Nöfn á hvers kyns hugverkum, svo sem bókum, sögum, ljóðum, blöðum, tímaritum, tónverkum, kvikmyndum, myndverkum, höggmyndum, smíðisgripum og þess háttar:
• Biblían, Draupnir, Frelsisstyttan, Hrafninn flýgur, Mjölnir, Morgunblaðið, Nýja testamentið, Rimmugýgur, Sjálfstætt fólk, Skírnir, Tunglskinssónatan, Vald örlaganna, Völuspá, Þotuhreiður
d. Nöfn á ýmiss konar vörum (vörumerki):
• Gotti, Svali, Húsavíkurjógúrt, Kaldi, Dala-Yrja
1.2.2.5 Nöfn á skipulögðum félagsskap, stofnunum, embættum og fyrirtækjum eru sérnöfn. Þar á meðal eru:
a. Nöfn á fyrirtækjum og stofnunum:
• Alþingi, Alþjóðavinnumálastofnunin, Bjargráðasjóður, Flugmálastjórn, Frumherji, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Héraðsdómur Reykjavíkur, Hæstiréttur Íslands, Íslenskar sjávarafurðir, Lánasjóður íslenskra námsmanna, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, Norræna menningarmálaskrifstofan, Ríkisendurskoðun, Ríkisútvarpið, Sameinuðu þjóðirnar, Samskip, Stórþingið (norska), Stöð 2, Þjóðleikhúsið
Athugið. Nöfn stofnana/embætta sem bera heiti sem jafnframt er starfsheiti æðsta yfirmanns, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri, má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu (sjá um lítinn staf í starfsheitum í § 1.3.2 a).
> [§ 1.3.6.4] Heiti nefnda, ráða, deilda, sviða og ráðuneyta eru oftast lýsandi, til dæmis kjararáð, barnaverndarnefnd eða félagsvísindasvið, og þess vegna nokkurs konar samnöfn/tegundarheiti sem rituð eru með litlum upphafsstaf. Um leið má líta á þau sem sérnöfn og rita með stórum upphafsstaf, til dæmis Kjararáð, Barnaverndarnefnd eða Félagsvísindasvið. Í þessu efni er brýnt að huga að hefð og samræmi. Til dæmis er hefð innan opinberrar stjórnsýslu að líta á þessi orð sem samnöfn.
b. Nöfn á bandalögum, flokkum, söfnuðum, félögum, klúbbum, söngflokkum, hljómsveitum, leikhópum og þess háttar:
• Bandalag íslenskra skáta, Eimskipafélag Íslands, Evrópska efnahagssvæðið, Hið íslenska bókmenntafélag, Íþróttasamband Íslands, Karlakór Akureyrar, Krossinn, Neytendasamtökin, Rauði krossinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Stuðmenn
1.2.3 Stór stafur er ritaður í heitum þjóða, þjóðflokka og fleiri hópa manna
1.2.3.1 Heiti (formleg og óformleg) þjóða, þjóðarbrota og þjóðflokka (þ.e. hópa manna sem deila eða hafa deilt tungu, menningu og landi):
• Arabar, Astekar, Baskar, Baunar, Bretónar, Búar, Danir, Englar, Englendingar, Forn-Grikkir, Fransmenn, Gallar, Gotar, Grikkir, Hellenar, Hundtyrkinn, Húnar, Inúítar, Indverjar, Írakar, Íslendingar, Ísraelsmenn, Keltar, Kúrdar, Kvenir, Langbarðar, Mongólar (íbúar Mongólíu), Navahóar, Norðmenn, Norsarar, Palestínumenn, Portúgalar, Samar, Saxar, Sígaunar, Slavar, Spanjólar, Taílendingar, Tamílar, Tjallar, Tsjetsjenar, Vestur-Íslendingar, Þjóðverjar, Þýskarar
Athugið. Heiti fylgismanna trúarbragða og viðhorfa eru rituð með litlum upphafsstaf (sbr. § 1.3.3.2 e). Undir þá reglu getur orðið gyðingur fallið, en hins vegar eru Gyðingar þjóð, sögulega séð. Hér þarf því að huga að samhengi og samræmi.
> [§ 1.3.5] Ýmis gömul (og úrelt) kynþáttaheiti (einkum byggð á útlitseinkennum) eru rituð með litlum upphafsstaf; dæmi aríar, eskimóar, kákasítar, mongólar (Asíubúar), negrar, negrítar.
1.2.3.2 Heiti íbúa, ætta og liðsmanna sem dregin eru af sérnafni:
a. Íbúaheiti, þ.e. heiti manna sem kenndir eru við einhvern búsetustað, heimsálfu, landsvæði, landshluta, hérað, sveit, borg, bæ og þess háttar:
• Austfirðingar, Breiðhyltingur, Evrópumenn, Gilsbekkingar, Ísfirðingar, Keldhverfingar, Mývetningar, Ólsarar, Reykvíkingur, Seyðfirðingar, Stokkseyringar, Vestmannaeyingar, Vesturbæingar
b. Ættaheiti, þ.e. manna sem kenndir eru við mann (skírnar- eða ættarnafn forföður) ellegar stað og teljast einnar ættar:
• Ásbirningar, Oddaverjar, Sturlungar, Thoroddsenar, Bergsætt, Arnardalsætt
c. Liðsmannaheiti, þ.e. heiti manna sem kenndir eru við félag, samtök eða foringja:
• Ármenningur, Bliki, Breiðabliksmaður, Dagsbrúnarmaður, Framarar, Geirsmenn, Gunnarsmenn, Sóknarkona, Valsari, Valtýingur, Víkingar, Þórsari
d. Heiti fylgismanna stjórnmálaflokka sem dregin eru af nafni flokksins, einnig þó að það sé stytt:
• Framsóknarkona, Kristilegir demókratar, Repúblikani, Samfylkingarkona, Samfylkingarsinni, Vinstri grænir, Sjálfstæðismaður
> [§ 1.3.3.2 f; § 1.3.6] Heiti fylgismanna stjórnmálaflokka geta átt sér samhljóða lýsandi orð sem falla þá undir reglu um að heiti fylgismanna stjórnmálastefna séu rituð með litlum upphafsstaf. Orðið íhaldsmaður getur verið samheiti en jafnframt heiti á stuðningsmanni flokks sem heitir Íhaldsflokkurinn og er þá ritað Íhaldsmaður. Hér þarf að gæta að merkingu og samræmi.
> [§ 1.3.3.2 f] Heiti stjórnmálaviðhorfa og fylgismanna þeirra (öfugt við heiti fylgismanna skipulagðra félaga eða flokka) eru rituð með litlum upphafsstaf þótt þau séu dregin af sérnafni (lenínismi, lenínisti, maóismi, maóisti).
> [§ 1.3.3.2 e] Heiti trúarbragða, viðhorfa, strauma og stefna og fylgismanna þeirra eru rituð með litlum upphafsstaf enda þótt þau séu dregin af sérnafni: ásatrú, ásatrúarmaður, benediktínar, frjálshyggja, íslam, kalvínismi, kalvínisti, kristni, múhameðstrú.
1.2.4 Stór upphafsstafur er oft ritaður í samsettum orðum sem mynduð eru af sérnafni
Sérnöfn (sbr. § 1.2.2) eru oft rituð með stórum upphafsstaf í samsetningum, enda þótt samsetningin sjálf sé ekki alltaf sérnafn. Dæmi:
a. Samsett nafnorð þar sem fyrri liður er sérnafn (oftast í eignarfalli):
• Bernoulli-lögmál, Davíðsmaður, Jónsmessa, Maríubæn, Margrétarmessa, Marshall-aðstoð, Newtons-lögmál, Nóbelsverðlaun, Nóbelsverðlaunahafi, Ólafsvaka, Steingrímsarmurinn, Vernerslögmál, Þorláksmessa
> [§ 1.3.3.2] Frá þessu eru nokkrir flokkar undantekninga: Dýraheiti (jakobsfiskur), plöntuheiti (maríustakkur), matvælaheiti (kínarúlla), ýmis læknisfræðiheiti (parkinsonsveiki) og heiti á trúarbrögðum (lúterstrú) eru rituð með litlum upphafsstaf. Einnig ýmis orð sem (upprunalega) eru dregin af sérnöfnum en hafa fengið almenna merkingu eða eru eins konar tegundarheiti (sjá § 1.3.3.2 g).
> [§ 1.3.2 a] Starfsheiti eru rituð með litlum staf þó að fyrri hluti þeirra sé til sem sérnafn: alþingismaður, hæstaréttardómari, en þegar starfsheiti er skeytt aftan við heiti þjóðar, lands, stofnunar eða fyrirtækis má rita það með stórum staf: Bandaríkjaforseti, Rússlandskeisari, Fiskistofustjóri, Morgunblaðsritstjóri.
b. Í samsettum heitum þar sem fyrri liðurinn er lýsingarorð eða atviksorð eru báðir liðirnir ritaðir með stórum upphafsstaf og tengdir með bandstriki (sjá § 26.1.3):
• Norður-Kórea, Stóru-Hámundarstaðir, Suður-Ameríka, Syðri-Reistará, Litli-Jón, Svarti-Pétur, Forn-Grikkir, Litli-Kláus
> [§ 1.3.6.3 b] Ef síðari liður er samnafn er hann ritaður áfastur og með litlum upphafsstaf: Breiðafjörður, Kaldakinn, Langidalur, Suðursveit. Vafamál getur verið hvort síðari liður er sérnafn eða samnafn, til dæmis hvort rita á bæjaheitin Syðra-Sel og Efra-Sel svo eða Syðrasel og Efrasel ef ekki er til bærinn Sel.
c. Í samsettum sérnöfnum þar sem fyrri liðurinn er nafnorð í eignarfalli eru báðir liðirnir ritaðir með stórum upphafsstaf og tengdir með bandstriki:
• Ástar-Brandur, Fjalla-Eyvindur, Grasa-Gudda, Höfðabrekku-Jóka, Víga-Glúmur, Skalla-Grímur
Athugið. Síðari liður getur glatað sérnafnseðli sínu í vitund manna og má þá rita með litlum upphafsstaf og án bandstriks: Kveldúlfur, Skallagrímur.
1.2.5 Önnur notkun stórs stafs
1.2.5.1 Stóra stafi má nota á svipaðan hátt og fleiri leturbreytingar, til dæmis til áherslu:
Lofaðu að gera þetta ALDREI AFTUR!
1.2.5.2 Stórir stafir koma einnig fyrir í ýmsum skammstöfunum o.fl., til dæmis þegar bókstafir gegna líku hlutverki og tölustafir.
• A-hluti, ASÍ, BA-próf, BHM, DNA-próf, DV, ESB, ESB-aðild, FH, HIV-veiran, HM ’03, ÍSÍ, LÍÚ, SÍBS, SÞ, Deild 12 B, Lækjargata 25 B
1.3 Lítill stafur
1.3.1 Lítill stafur er að jafnaði notaður í rituðu máli
Meginreglan í rituðu máli er að nota lítinn staf, hann er hlutlaus, en með notkun stórs stafs er nokkurs konar viðbótarupplýsingum komið til skila, um áherslu, upphaf nýrrar málsgreinar o.s.frv. (sjá § 1.2).
Lítill stafur er notaður nema reglur um stóran staf kveði á um annað. Reglur um lítinn staf fjalla því ekki um öll tilvik þar sem nota skal lítinn staf, heldur eru til áréttingar um ýmis tilvik.
1.3.2 Samnöfn eru að jafnaði rituð með litlum upphafsstaf
Samnöfn eru sameiginleg heiti, eða tegundarheiti, sem alls kyns fyrirbæri bera, hvort sem þau eru lifandi eða dauð, sýnileg eða ósýnileg o.s.frv., til dæmis akur, bók, fluga, hugmynd, hveiti, list, kennari, maður, sokkur. Samnöfn eru að jafnaði rituð með litlum upphafsstaf. (Um óljós mörk milli samheita og sérheita, sjá § 1.3.6.)
Ef samnafn er dregið af sérnafni er það oft ritað með stórum upphafsstaf (sjá § 1.2.4) en nokkrir flokkar af merkingarlega skyldum orðum eru undantekningalaust ritaðir með litlum staf (sjá § 1.3.3.1–§ 1.3.3.2).
Samnöfn eru meðal annars:
a. Starfsheiti og titlar:
• alþingismaður, biskup, borgarstjóri, bóndi, doktor, dómsmálaráðherra, forseti, forsætisráðherra, frú, herra, hæstaréttardómari, kennari, konungur, landlæknir, ljósmóðir, lögfræðingur, prestur, prófessor, sálfræðingur, séra, sjómaður, skáld, skipstjóri, smiður, sýslumaður, verkamaður
Athugið. Þegar starfsheiti er skeytt aftan við heiti þjóðar, lands, stofnunar eða fyrirtækis má rita það með stórum staf: Bandaríkjaforseti, Rússlandskeisari, Fiskistofustjóri, Morgunblaðsritstjóri.
> [§ 1.2.2.5 b] Einstaka sinnum er starfsheiti einnig heiti stofnunar eða embættis, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri. Þau má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu.
b. Viðurnefni ýmiss konar eru talin til samnafna:
• (Ari) fróði, (Árni) ljúflingur, (Jón) lærði, (Þuríður) formaður, (Ketill) hængur, (Gunnar) smiður
c. Heiti vikudaga og mánaða:
• fimmtudagur, týsdagur, júní, ágúst, þorri
d. Starfsgreinar, fræði og próf:
• heimspeki, hjúkrun, járnsmíði, landafræði, stúdentspróf, verkfræði
> [§ 1.2.5.2] Stórir stafir eru notaðir í ýmsum skammstöfunum, m.a. í BA-próf, MS-próf, DNA-próf.
e. Efni og vörur:
• amfetamín, hárlakk, kaffi, kísilgúr, leður, lýsi, sykur, vítamín
> [§ 1.2.2.4 d] Heiti vörumerkja eru rituð með stórum staf: Gotti, Penzim, Svali
f. Gjaldmiðlar:
• bandaríkjadalur, dalur, dollari, evra, kanadadalur, króna, líra, pund, rúbla, svissneskur franki
g. Fjöldi annarra orða sem vísa til eðlis, gerðar, staðsetningar, hugmynda, áþreifanlegra og óáþreifanlegra fyrirbæra, einhvers sem endurtekur sig reglubundið o.s.frv.:
• alkóhólisti, andskoti, barlómur, engill, félag, fjandi, fob-verð, haust, hálendi, heimsmeistaramót, lygalaupur, lýðveldi, miðbaugur, ráðuneyti, silfurverðlaun, þorrablót
1.3.3 Um samnöfn sem dregin eru af sérnafni
1.3.3.1 Ef samnafn er dregið af sérnafni er það oft ritað með stórum upphafsstaf (sjá § 1.2.2.5 b). Mörg orð sem dregin eru af sérnafni eru hins vegar tegundarheiti eða hafa fengið almenna merkingu þannig að tengslin við upprunann eru orðin óljós. Oft er um erlend sérnöfn að ræða en tegundarheiti geta líka byrjað á orði af erlendum uppruna án þess að það sé sérnafn. Því gildir sú regla um nokkra flokka orða að þau eru ávallt rituð með litlum upphafsstaf, óháð uppruna. Önnur orð sem dregin eru af sérnafni hafa skýrari tengsl við upprunann eða eru jafnvel sjálf sérnafn á einstöku fyrirbærum.
Eftirfarandi dæmi varpa ljósi á þessi mismunandi og oft óljósu tengsl:
Vínarsáttmálinn er einn ákveðinn sáttmáli kenndur við Vínarborg (sérnafn)
vínarbrauð er tegund af brauði sem kennt er við Vínarborg (tegundarheiti)
hamborgari er dregið af sérnafni (Hamborg).
lasanja er ekki dregið af sérnafni.
lygamörður er dregið af sérnafninu Mörður sem er sögupersóna í Njálu en hefur almennu merkinguna ‘maður sem lýgur mikið’.
lygalaupur er samsett úr samnöfnunum lygi (‘ósannindi’) og laupur (‘rimlakassi’) og hefur almennu merkinguna ‘maður sem lýgur mikið’.
Hjálparregla: Með tegundarheitum er oft hægt að nota eins konar eða hvers konar?
Hvers konar bolla er þetta? Þetta er berlínarbolla.
Hvers konar blóm er þetta? Þetta er maríustakkur.
Hvers konar vín er þetta? Þetta er rínarvín.
1.3.3.2 Sum samnöfn eru rituð með litlum staf ÞÓTT þau séu dregin af sérnafni
Tegundarheiti dýra og jurta, matvælaheiti og læknisfræðiheiti eru rituð með litlum upphafsstaf þótt þau séu upprunalega dregin af sérnöfnum. Sama gildir um heiti trúarbragða, viðhorfa, strauma og stefna og heiti fylgismanna þeirra:
a. Heiti á tegundum eða flokkum dýra eru rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki:
• abyssiníuköttur, alaskaufsi, balíköttur, bengalköttur, dalmatíuhundur, dingóhundur, dóbermannhundur, galloway-nautgripur, herefordnautgripur, jakobsfiskur, jövuköttur, kolkuóshross, labradorhundur, maríubjalla, maríudepla, maríuerla, maríuhæna, mývatnssilungur, nýfundnalandshundur, óðinshani, pýreneahundur, rottweiler-hundur, sanktibernharðshundur, setterhundur, síamsköttur, sómalíuköttur, spánarsnigill, spaníelhundur, stóridani, svaðastaðahross, terríerhundur, þingvallamurta, þórshani
b. Heiti á tegundum jurta eru rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérnafni eða ekki:
• alaskalúpína, alaskavíðir, alaskaösp, aronsvöndur, baldursbrá, brekkumaríustakkur, davíðslykill, dvergsóley, engjamaríustakkur, fjallakobbi, freyjubrá, friggjargras, gullauga, gullbrá, helga (kartöflur), hvítárlax, ingimarsfífill, íslandsfífill, jakobsfífill, jakobsstigi, lilja, lokasjóður, maríugrös, maríulykill, maríustakkur, maríusvunta, maríuvendlingur, maríuvöndur, maríuvöttur, mývatnsgrös, ólafsrauðar, ólafssúra, ránarkambur, ránarkjarni, rauðsmári, reynir, smári, snækobbi, sóley, spánarkerfill, stefánssól, steindórssól, tírólamerla, týsfjóla, unnarfaldur, víðir, þyrnirós, ægissigð
Athugið. Til eru samheiti sem eiga sér samhljóma sérheiti, þar á meðal mannanöfn. Ef um er að ræða sérheiti eru þau vitaskuld rituð með stórum upphafsstaf, til dæmis Lilja, Reynir, Smári, Sóley, Víðir.
c. Heiti á tegundum matvæla eru rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki:
• armaníak, basmatíhrísgrjón, bayonne-skinka, berlínarbolla, béarnaise-sósa, bolognasósa (bolognese-sósa), bordóvín (bordeaux-vín), búrbonviskí (bourbon-viskí), dijon-sinnep, gádaostur (gouda-ostur), genúakaka, gíneupipar, gorgonsólaostur (gorgonzola-ostur), grahams-mjöl, gullauga, hamborgari, helga (kartöflur), hólsfjallahangikjöt, jaffaappelsínur, jalapenjo, jövukaffi, kalamataólífur, kamembertostur (camembert-ostur), kampavín, kasjúhneta, keníukaffi, kínakál, kínarúlla, kólumbíukaffi, lasanja, londonlamb, madeirasósa, madeiravín, móselvín, napóleonshattur, napóleonskaka, ólafsrauðar, parmaostur, parmaskinka, pekingönd, rínarvín, roquefort-ostur, skalottlaukur, stroganoffbuff, vínarbrauð, vínarpylsa, vínarsnitsel, vínarterta, waldorf-salat, worcester-sósa
> [§ 1.2.2.4 d] Heiti vörumerkja eru rituð með stórum staf: Gotti, Svali.
d. Ýmis læknisfræðileg hugtök (sjúkdómar og fleira) eru rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki:
• akureyrarveikin, alzheimers-sjúkdómur, asíuflensa, downs-heilkenni, fuglaflensa, hermannaveiki, inflúensa, langerhanseyjar, liðagigt, parkinsonsveiki, stokkhólmsheilkennið, sóríasis (psoriasis)
e. Heiti trúarbragða og viðhorfa, strauma og stefna og heiti fylgismanna þeirra eru rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki:
• ágústínar, ásatrú, ásatrúarmaður, benediktínar, búddismi, búddisti, dadaismi, frjálshyggja, fransiskanar, guðspekingur, gyðingur, húgenotti, íslam, jafnaðarstefna, kalvínismi, kalvínisti, kalvínstrú, kristin trú, kristni, kúbismi, kvekari, lúterska, múhameðstrú, múhameðstrúarmaður, múslími, póstmódernismi, raunsæi, raunsæismaður, rómantík, sjíti, sósíalismi, súnníti
f. Heiti stjórnmálastefna og fylgismanna þeirra eru rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki:
• fasismi, lenínismi, lenínisti, maóismi, maóisti, marxismi, panslavismi, sósíalisti, stalínismi, stalínisti, thatcherismi, trotskíisti, valtýska
> [§ 1.2.3.2 c] Munur er gerður á heiti fylgismanna stjórnmálastefna (stalínisti) og fylgismönnum einstakra foringja (Stalínsmaður). Til leiðsagnar má hafa að orð sem enda á -ismi og -isti eru skrifuð með litlum staf.
g. Ýmis orð sem (upprunalega) eru dregin af sérnöfnum en hafa fengið almenna merkingu eða eru eins konar tegundarheiti eru rituð með litlum upphafsstaf:
• adamsepli, akkillesarhæll, alpagrein, aulabárður, bermúdabuxur, biblíufróður, bögubósi, dísilbifreið, evuklæði, gordíonshnútur, grettistak, gróusaga, gvendarbrunnur, hrunadans, kaupahéðinn, kínaskór, kvislingur, lygamörður, maríutása, röntgenmynd, salómonsdómur, síamstvíburar, svikahrappur, þórðargleði, þyrnirósarsvefn, ökuþór
1.3.3.3 Samnöfn rituð með litlum staf NEMA þegar þau eru dregin af sérnafni
Heiti einstakra daga, mánaða, tímabila, hátíða og sögulegra viðburða eru rituð með litlum staf nema þegar þau eru dregin af sérnafni:
• aðventa, ár fatlaðra, bannár, dagur íslenskrar tungu, dagur Sameinuðu þjóðanna, fornöldin, franska byltingin, frostaveturinn mikli, fullveldisdagur, hundadagar, hvítasunna, iðnbyltingin, jól, júlí, kalda stríðið, landnámsöld, laugardagur, móðuharðindi, nóvember, páskar, sjómannadagurinn, skírdagur, sumardagurinn fyrsti, þjóðhátíðardagur, þorri, þrælastríðið, verslunarmannahelgi
> [§ 1.2.4 a] Samsett nafnorð af þessu tagi þar sem fyrri liður er sérnafn eru skrifuð með stórum upphafsstaf, til dæmis Margrétarmessa, Napóleonsstríðin, Sturlungaöld, Þorláksmessa, Örlygsstaðabardagi
1.3.4 Heiti tungumála, málaætta og mállýskna eru rituð með litlum upphafsstaf
Ritaður er lítill upphafsstafur í heitum tungumála, málaflokka og mállýskna, enda þótt líta megi á þau sem sérheiti og þau séu (mörg) dregin af sérnöfnum:
• bantúmál, danska, finnlandssænska, forngríska, harðmæli, íslenska, jóska, kákasusmál, krímgotneska, latína, níger-kongó-mál, papúamál, svahílí, vestfirska, vesturíslenska
1.3.5 Ýmis gömul (og úrelt) kynþáttaheiti (einkum byggð á útlitseinkennum) eru rituð með litlum upphafsstaf
• aríar, eskimóar, kákasítar, mongólar (Asíubúar), negrar, negrítar
1.3.6 Lýsandi orð og samhljóða samheiti og sérheiti
1.3.6.1 Fjölmörg dæmi eru um að mannanöfn eigi sér samhljóða samheiti (til dæmis Bára og bára). Oftast má þó af ráða af samhengi hvort um er að ræða nafn sem ritað er með stórum upphafsstaf eða samnafn sem ritað er með litlum upphafsstaf.
Örnefni geta einnig átt sér samhljóða samheiti (til dæmis bærinn Eyri sem stendur á eyri) en þau eru oft lýsandi og þá ekki alltaf eins augljóst hvenær um er að ræða samnafn og hvenær sérnafn. Stundum þarf að þekkja staðhætti.
Hins vegar eru til dæmi þar sem slík lýsandi orð má túlka á tvo vegu, sem samheiti eða sérheiti (til dæmis barnaverndarnefndin í Reykjavík heitir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur).
1.3.6.2 Mannanöfn eiga sér oft samhljóða sérheiti:
• Bára/bára, Gestur/gestur, Sóley/sóley, Úlfur/úlfur
1.3.6.3 Örnefni eiga sér oft samhljóða heiti:
a. Mörg örnefni eiga sér samhljóða samheiti, gjarna lýsandi:
• Eyri/eyri, Garður/garður, Hóll/hóll, Sandur/sandur
Í slíkum dæmum sýnir samhengi oftast hvort um er að ræða samnafn eða sérnafn, eins og í þessum setningum:
Bærinn á hólnum heitir Hóll.
Í miðborg Reykjavíkur er tjörn sem heitir Tjörnin.
Í stöku tilvikum er óljóst hvort slík lýsandi heiti eru sérnafn eða samnafn, eins og til dæmis:
Þau gengu í kringum Tjörnina í miðborg Reykjavíkur.
Þau gengu í kringum tjörnina í miðborg Reykjavíkur.
Í tilvikum sem þessum er ráðlegt að fylgja mál- og ritvenju á hverjum stað.
Lýsandi heiti sem eiga við aðeins einn stað má stundum túlka sem sérnafn. Því er valfrelsi í rithætti eftirtalinna orða:
• norðurpóll/Norðurpóll, suðurpóll/Suðurpóll, norðurheimskaut/Norðurheimskaut, suðurheimskaut/Suðurheimskaut
Athugið. Á sama hátt má hugsa sér að miðhálendi geti verið sérheiti (Miðhálendi) en mælt er með litlum staf.
b. Ef síðari liður í samsettu örnefni er samnafn er hann ritaður áfastur fyrri liðnum (án bandstriks) og með litlum upphafsstaf (til dæmis Reykjavík, Miklabraut). Hins vegar getur leikið vafi á því hvort slíkur liður er samnafn eða sérnafn:
• Efribakki/Efri-Bakki, Syðrigrund/Syðri-Grund, Ystihóll/Ysti-Hóll
Í tilvikum sem þessum er ráðlegt að fylgja mál- og ritvenju á hverjum stað, sé þess kostur.
1.3.6.4 Nefndir, ráð, deildir, svið og ráðuneyti bera oft lýsandi heiti:
• barnaverndarnefnd, félagsvísindasvið, kjararáð
Slík heiti má líta á sem samheiti/tegundarheiti og rita með litlum upphafsstaf. Um leið má líta á þau sem sérheiti og rita með stórum upphafsstaf:
• Barnaverndarnefnd, Félagsvísindasvið, Kjararáð
Ólík túlkun þess konar orða kemur fram í setningum eins og:
Í Reykjavík er barnaverndarnefnd og hún heitir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur.
Í Háskóla Íslands er ein lagadeild og hún heitir Lagadeild.
Á Íslandi er hæstiréttur sem heitir Hæstiréttur Íslands.
Á Íslandi er stjórnarráð samsett úr mörgum ráðuneytum.
Það heitir Stjórnarráð Íslands.
Þegar heiti slíkra nefnda, ráða, deilda, sviða og ráðuneyta eru rituð er brýnt að huga að hefð og samræmi. Til dæmis er hefð innan opinberrar stjórnsýslu að líta á þessi orð sem samheiti og rita til dæmis kjararáð og mennta- og menningarmálaráðuneyti með litlum upphafsstaf.
1.3.6.5 Lýsandi orð geta verið hluti sérnafns; til dæmis:
• Héraðssambandið Skarphéðinn, Karlakórinn Þrestir, Knattspyrnufélagið Fram, Sveitarfélagið Árborg, Verkakvennafélagið Sókn, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, Verslunin Brá, Víðavangshlaup ÍR
Slík heiti má líta á sem samheiti/tegundarheiti og rita með litlum upphafsstaf:
• héraðssambandið Skarphéðinn, karlakórinn Þrestir, knattspyrnufélagið Fram, sveitarfélagið Árborg, verkakvennafélagið Sókn, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, verslunin Brá, víðavangshlaup ÍR
Þegar slík heiti eru rituð er brýnt að huga að hefð, samræmi og formlegri skráningu heitisins, sé þess kostur. Einnig þarf að gæta þess að lýsandi orð eru ekki alltaf hluti af skráðu sérheiti, til dæmis er orðið verslunin ekki hluti af nafni Melabúðarinnar. Því væri rangt að skrifa Verslunin Melabúðin.
2. Eitt orð eða fleiri
2.1 Samsett orð
Samsett orð eru almennt rituð í einu orði (sjá § 2.1.1–§ 2.1.3).
2.1.1 Fyrri hluti er nafnorð
Ef fyrri hluti í samsettu orði er nafnorð er hann jafnan eitt af þrennu: stofn (ráð|gjöf), stofn með tengistaf (ráðu|nautur, leikfimis|föt) eða orð í eignarfalli (ráðs|maður).
• brúðgumi, dúndurhress, hártoga, húsvitja, jarðhús, máttvana, mettap, nettóhækkun, núllkostur, persónugera, radíóneyðarbauja, salsatónlist, tæknifrjóvga, vinsæll
• drekkutími, fylgihnöttur, hoppuróla, leikfimiskennari, ráðuneyti, ruslafata
• alþjóðasamtök, aufúsugestur, Bláalónshlaupið, efnagreina, eftirlætisréttur, farartæki, fimmtungsaukning, fyrirmyndarfjölskyldufaðir, hálfsársdvöl, heildaratkvæðagreiðsla, heildarfjöldi, heilsdagsvistun, helgarátak, helmingsafsláttur, helmingseigandi, hlutafé, hæglætismaður, innskráningargluggi, kaldastríðsástand, kaldavatnskrani, langtímaskuldir, nútímatækni, nútímaumhverfishugsun, nýtískufatnaður, stundarvandræði, vikufyrirvari, örbylgjuskyndiréttur
2.1.2 Fyrri hluti er af öðru tagi
Fyrri hluti orðs getur einnig verið lýsingarorð (langatöng), atviksorð eða forsetning (svolítill, framkoma), forskeyti (örmagna) eða forliður (aðalinngangur). Þegar lýsingarorð veikrar beygingar er fyrri liður er það oft beygt (um löngutöng).
• glaðlyndur, rösklega, langatöng, langavitleysa, lítillækka, Miklabraut, strangvísindalegur, vandvirkur
• aðferð, aðskilja, afsanna, aftanákeyrsla, aftanívagn, atferli, áburður, framámaður, framkoma, framhjáhald, framíkall, frammistaða, framúrakstur, fyrirframgreiðsla, fráfærur, fyrirskipun, hjáseta, innantökur, innihalda, innivera, innlendur, íhuga, meðmæli, millifæra, mótdrægur, svolítill, samanstanda, tilburðir, undanfari, uppáhald, uppástunga, uppgjöf, uppígreiðsla, utanumhald, uppiskroppa, útafakstur, útásetning, útför, útilega, viðkoma, viðkvæmur, viðurlög, yfirmaður
• aðalinngangur, algóður, allgóður, andstæðingur, auðsveipur, endurúthluta, formaður, frumstæður, fullmikill, gagnstæður, gegndrepa, gerbreyta, gjörbreyta, hálfundarlegur, jafnlyndur, jafnvægi, langstærstur, meginágreiningur, meginland, meginregla, misbjóða, misheppnaður, ósannindi, samskeyti, sérframboð, sífelldur, torlæs, vanmegnugur, vanvirða, öndverður, örmagna
2.1.3 Áhersluforliðir
Oft er nafnorði í eignarfalli skeytt framan við nafnorð, lýsingarorð eða atviksorð til að auka vægi eða herða á merkingu þess:
• afbragðsmaður, ágætismaður, aftakaveður, blæjalogn, fjöldamargir, forkunnarfagur, furðugóður, myndardrengur, óhemjuilla, óhemjuvandaður, óskapahiti, óvenjugóður, undragóður, úrvalshveiti
2.1.4 Ritun í aðskildum orðum
2.1.4.1 Orðasambönd með fyrri lið í þágufalli
Orðasambönd með fyrri lið í þágufalli eru yfirleitt rituð í tveimur orðum en það getur þó farið eftir áherslu (sjá § 2.8.1).
• fjöðrum fenginn, goðum líkur, sigri hrósandi
2.1.4.2 Heiti íslenskra fornsagna
Samkvæmt hefð eru heiti íslenskra fornsagna rituð í aðskildum orðum.
• Bárðar saga, Brennu-Njáls saga, Breta saga, Egils saga Skalla-Grímssonar, Ólafs saga Tryggvasonar, Ögmundar þáttur dytts
2.2 Forliðir
Orðin afar, of og ofur skal rita áföst nafnorðum og sagnorðum en laus frá lýsingarorðum og atviksorðum. Einnig er heimilt að rita jafn laust frá lýsingarorðum og atviksorðum:
afarkostir _ _ afar vel, afar stór
offramleiðsla, ofnota _ _ of oft, of lítill
ofurmenni _ _ ofur glaðlega, ofur einfaldur
Hann hefur aldrei verið jafn góður (einnig: jafngóður) og núna.
Jóna fór jafn oft (einnig: jafnoft) til Akureyrar og Jón.
2.3 Lýsingarorð dregin af sögn
Rita skal í einu orði lýsingarorð sem dregin eru af sögn og hafa atviksorð sem fyrri lið:
• áðurgreindur, áðurnefndur, eftirágreiddur, eftirfarandi, eftirfylgjandi, eftirkomandi, eftirlifandi, framanritaður, framansagður, framkominn, framúrskarandi, fullunninn, fyrirframákveðinn, fyrrgreindur, fyrrnefndur, fyrrtalinn, heittelskaður, innilokaður, niðursokkinn, núgildandi, næstkomandi, næstliðinn, ofandottinn, ofangreindur, ofannefndur, ofantalinn, óviðkomandi, samansaumaður, síðastliðinn, skjótafgreiddur, sundurgrafinn, svofelldur, svohljóðandi, svokallaður, svonefndur, tilsettur, undanfarandi, undanfarinn, uppáfallandi, uppáklæddur, uppiliggjandi, uppistandandi, uppstoppaður, utanaðkomandi, utanaðsteðjandi, utanáliggjandi, úrsérgenginn, útafliggjandi, útúrdrukkinn, yfirstandandi, þágildandi
Þegar skýr áhersla er á hverjum lið og hægt er að breyta orðaröð án þess að grunnmerking liða breytist þá eru þessi sambönd ekki rituð sem ein heild.
• áður afskrifað, vel greiddur, vel syndur, þar að lútandi, þar af leiðandi
2.4 Töluorð og fornöfn
2.4.1 Sambönd töluorða
Orðasambönd með töluorðum eru rituð í aðskildum orðum.
• átján barna faðir, eins hreyfils flugvél, eitt hundrað þrjátíu og sjö, fimm þúsund króna seðill, fyrsta maí ganga, nítjándu aldar skáld, sautjánda júní hátíðarhöld, sjö vikna fasta, tólf spora kerfi, tuttugu og tveir, tveggja flokka fyrirkomulag, tvö þúsund þrjú hundruð fimmtíu og níu, sjötugasti og annar, tvö þúsund fjögur hundruð sextugasti og fyrsti, þriggja daga skegg
Einstaka sinnum renna þó töluorð og nafnorð í eignarfalli í eina heild með eftirfarandi nafnorði. Heildarmerking orðsins verður stundum önnur en einstakra liða.
• fimmaurabrandari, fjórðapartsnóta, fjögralaufasmári, sjömílnaskór, Sjöorðabókin, þúsundblaðarós, þúsundþjalasmiður
2.4.2 Sambönd fornafna
Fornafnasambönd eru rituð aðskilin.
• annar hver, annar hvor, annar tveggja, hvor tveggja, öðru hverju, öðru hvoru
2.5 Aukafallsliðir
Ýmis fallorð í aukafalli með atvikslega merkingu skal rita í samræmi við uppruna, þ.e. hvert orð út af fyrir sig. Þau vísa gjarna til tíma, staðar eða háttar.
• lítils háttar, meiri háttar, mikils háttar, minni háttar, þess háttar
• alls konar, einhvers konar, eins konar, hvers konar, margs konar, nokkurs konar, sams konar, tvenns konar, ýmiss konar
• alls kostar
• alls kyns, hvers kyns, margs kyns, þess kyns
• eitt sinn
• einhverju sinni, einu sinni, hverju sinni, nokkru sinni
• alls staðar, annars staðar, einhvers staðar, nokkurs staðar, sums staðar
• einhvern tíma(nn), nokkurn tíma(nn)
• annars vegar, hins vegar
• einhvern veginn, engan veginn, nokkurn veginn
Orðið megin er ritað áfast undanfarandi nafnorði ef nafnorðið er samnafn án greinis.
• aðaldyramegin, bakborðsmegin, bakdyramegin, bílstjóramegin, brekkumegin, farþegamegin, gjaldamegin, hlémegin, karlamegin, kvennamegin, sjávarmegin, sólarmegin
Annars er orðið megin ritað laust frá undanfarandi orði.
• austan megin, báðum megin, réttum megin, sunnan megin, vitlausum megin, þeim megin, þín megin, Þýskalands megin, öðrum megin, öðrum hvorum megin
2.6 Atviksorð og forsetningar
2.6.1 Samband atviksorðs með öðru atviksorði eða forsetningu
Atviksorð geta myndað merkingarlega heild með öðru atviksorði eða forsetningu. Meginreglan er að rita hvert orð út af fyrir sig.
• aftur í, á meðal, á milli, baka til, enn þá, enn fremur, fram hjá, fram úr, fyrir fram, hér með, inn í, niður frá, norðan til, suður í, sunnan til, sunnan við, utan um, út af, út frá, út undan, yfir um, þar að auki
Frá þessu eru þrjár undantekningar:
• áfram, meðfram, umfram
2.6.2 Forsetning og stýrður liður
Forsetningu skal rita lausa frá því orði sem hún stýrir falli á, hvort sem hún fer á undan því eða eftir.
• hvers vegna, þess vegna, vegna þess, til þess að, af því að
2.7 Samtengingar
Ef samtenging er orðin til úr fleiri en einu orði skal rita hvert orð út af fyrir sig.
• af því að, áður en, eftir að, eins og, enda þótt, fyrr en, heldur en, hvaðan er, hvaðan sem, hvar sem, hvert sem, með því að, svo að, til þess að, úr því að, þangað sem, þar eð, þar sem, þó að, því að
2.8. Valfrelsi
2.8.1 Orðasamband eða hugtak
Ekki er alltaf greinilegt hvenær tvö orð eða fleiri hafa runnið saman í eina heild. Tvö orð geta myndað eina heild þegar þau sameinast þriðja orði í einu hugtaki með einni aðaláherslu fremst. Þá eru öll orðin rituð sem ein heild.
2.8.2 Fyrri liður er atviksorð
Valfrjálst er hvort nokkur orð eða orðasambönd með atviksorði og nafnorði í eignarfalli eru rituð í einu eða tveimur orðum. Ef orðasambandið er hluti af frekari samsetningu eru öll orðin ávallt rituð sem ein heild.
innan bæjar _ _ innanbæjar _ _ innanbæjarmaður
innan lands _ _ innanlands _ _ innanlandsflug
neðan jarðar _ _ neðanjarðar _ _ neðanjarðarlest
utan borðs _ _ utanborðs _ _ utanborðsmótor
utan húss _ _ utanhúss _ _ utanhússmálning
utan skóla _ _ utanskóla _ _ utanskólanemandi
Þegar valið er milli ritháttarins innan bæjar o.s.frv. og innanbæjar o.s.frv. er mælt með því að áhersla fái að ráða; sé skýr áhersla á síðari lið er mælt með rithætti í tveimur orðum.
2.8.3 Fyrri liður er lýsingarorð
Valfrjálst er hvort nokkur sambönd lýsingarorðs og nafnorðs eru rituð í einu eða tveimur orðum. Ef orðasambandið er hluti af frekari samsetningu eru öll orðin ávallt rituð sem ein heild.
Gamla testamentið _ _ Gamlatestamentið _ _ gamlatestamentisfræði
heiðinn dómur _ _ heiðindómur
hægri flokkur _ _ hægriflokkur _ _ hægriflokkastjórn
hægri fótur _ _ hægrifótur _ _ hægrifótarkálfi
hægri menn _ _ hægrimenn
hægri stjórn _ _ hægristjórn
kristin fræði _ _ kristinfræði _ _ kristinfræðikennari
kristinn dómur _ _ kristindómur _ _ kristindómsfræðsla
litli fingur _ _ litlifingur _ _ litlafingursnögl
meiri hluti _ _ meirihluti _ _ meirihlutastjórn
mikli hvellur _ _ miklihvellur _ _ miklahvellskenningin
æðsti prestur _ _ æðstiprestur _ _ æðstapreststíð
Þegar valið er milli ritháttarins Gamla testamentið o.s.frv. og Gamlatestamentið o.s.frv. er mælt með því að áhersla fái að ráða; sé skýr áhersla á síðari lið er mælt með rithætti í tveimur orðum.
2.9 Áhrif setningarlegrar stöðu
Orð og orðasambönd geta fengið mismunandi áherslu eftir því hvar þau standa í setningu. Þetta á til dæmis við lýsingarorð og lýsingarhætti sem eðlilegt virðist að rita í einu orði þegar þau standa sem einkunn með nafnorði, en í tveimur orðum þegar þau gegna hlutverki sagnfyllingar.
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er svo nefnt því að við vildum heiðra minningu hins þekkta fiskifræðings og frumkvöðuls í hafrannsóknum. – Í skipinu er svonefndur fellikjölur sem hægt er að slaka nokkra metra niður úr botni skipsins.
3. é, je og e
Þar sem je heyrist í framburði er ýmist ritað é, je eða e. Í flestum tilvikum er ritað é, en um undantekningar frá því er fjallað í § 3.3–§ 3.4.
3.2 é er almenna reglan
Ritað er é fyrir hljóðasambandið je þar sem í eldra máli var (oftast nær) langa sérhljóðið é, til dæmis:
• ég, él, fé, fékk, féll, hérað, mér, sér, séra, vér, vél, þér
3.3 je er ritað í upphafi aðkomuorða og í fleirtölu nafnorða sem enda á -jandi
Ritað er je í upphafi nokkurra orða af erlendum uppruna:
• je minn, Jemen, jen, Jenna, Jenný, Jens, jeppi, Jeremías, Jesaja, Jesper, jesúíti, Jesús, jesúsa (sig)
Ritað er je í fleirtölu nafnorða sem í eintölu enda á -jandi og í fleirtölu orðsins fjandi:
ET. |
NF. (hér er) |
byrjandi |
seljandi |
syrgjandi |
sækjandi |
þiggjandi |
fjandi |
FT. |
NF. (hér eru) |
byrjendur |
seljendur |
syrgjendur |
sækjendur |
þiggjendur |
fjendur |
|
ÞF. (um) |
byrjendur |
seljendur |
syrgjendur |
sækjendur |
þiggjendur |
fjendur |
|
ÞGF. (frá) |
byrjendum |
seljendum |
syrgjendum |
sækjendum |
þiggjendum |
fjendum |
|
EF. (til) |
byrjenda |
seljenda |
syrgjenda |
sækjenda |
þiggjenda |
fjenda |
3.4 e er ritað á eftir k og g
Ritað er ke og ge þó að j-hljóð heyrist í framburði:
• kefli, kekkjóttur, kela, kelda, ker, kex
• gedda, gel, geldfé, gemsi, gen, gera, geta
Um ke og ge er einnig fjallað í § 10.
3.5 Valfrelsi
3.5.1 Orðin smér, fégur eða smjer, fjegur
Valfrjálst er hvort ritað er smér, fégur eða smjer og fjegur. Ritháttur með je endurspeglar að í þessum orðum hefur gamalt jö orðið je (sbr. smjör, fjögur). Ritháttur með é er hins vegar í samræmi við almenna reglu um táknun hljóðasambandsins je.
3.5.2 eta eða éta
Valfrjálst er hvort ritað er eta eða éta en blæbrigðamunur þykir á merkingunni.
3.5.3 vefengja eða véfengja
Valfrjálst er hvort ritað er vefengja eða véfengja.
3.5.4 Nokkur mannanöfn
Nokkur mannanöfn eru ýmist rituð með é eða e/je þó að é sé algengara:
Gréta eða Greta
Grétar eða Gretar
Pétur eða Pjetur
Eðlilegt er að taka tillit til vilja nafnbera í þessu efni.
3.5.5 Þátíð sagnanna gróa, núa (gnúa), róa og snúa
Valfrjálst er hvort þátíð sagnanna gróa, núa (gnúa), róa og snúa er rituð með e eða é:
• greri/gréri, neri/néri, reri/réri, sneri/snéri
Ritháttur með e er í samræmi við uppruna, en é fylgir nútímaframburði.
4. Sérhljóðar á undan ng og nk
Víðast hvar á landinu er nú borinn fram breiður sérhljóði á undan ng og nk. Stafsetning miðast hins vegar við eldri framburð sem enn tíðkast að nokkru leyti á Vestfjörðum.
4.2 a, e, i/y, u og ö á undan ng/nng og nk/nnk
Á undan ng og nk er ritað a, e, i/y, u og ö þótt borið sé fram á, ei, í, ú og au.
• ang angi, banginn, einangra, fangelsi, hanga, langa, Mangi, rangali, slanga, svangur, vangi, þang
• ank ankeri, banki, blankalogn, dankast, franki, kankvís, planki, skankar, tankur, vankaður
• eng brengl, drengur, engifer, englar, gengur, hengsli, kengur, ílengja, lengi, rengla, slengja, sprengja, tengdur, þrengsli
• enk krenkja, skenkja, skenkur, þenking
• ing Alþingi, aumingi, bingó, bringa, dordingull, fingur, glingur, hringur, -ing (til dæmis æfing), Ingólfur, kringing, ringlaður, stingur, svings
• yng dyngja, lyng, syngja, þyngd, ynging
• ynng kynngi
• ink finka, klink, linkur, linkulegur, minkur, pinkill, pinkulítill, sink, vinka
• innk minnka
• ynk dynkur
• ynnk þynnka
• ung lunga, klungur, ungur, þungur
• unk aðjunkt, bunki, lunkinn, sunka
• öng göng, göngur, löng, spöng, þröngur
• önk fönk, hönk, pjönkur, pönkari, tönkum (af tankur), þönkum (vera í þungum þönkum, af þanki)
Skrifa skal hins vegar breiðan sérhljóða á undan ng og nk ef uppruni styður það.
• brúnka (af brúnn), jánka (af já), kveinka (af kvein), sínkur (af sín), Sveinki (af Sveinn), Svínka (af svín)
• rángirni (rán|girni), túngarður (tún|garður), vinkona (vinur|kona)
Athugið að ritað er héngum, -uð, -u (þátíð fleirtölu af sögninni hanga).
4.3 o, ó og æ á undan ng og nk
Aðrir stafir á undan ng og nk eru alltaf ritaðir í samræmi við framburð.
• ong bongótromma, gong, Hong Kong, kongóskur, kvongast, Mongólía, sarong
• onk bronkítis, konkretljóð, tonkabaun
• óng kónguló, kóngur
• ónk tjónkun, þjónka
• æng Klængur, sæng, vængja
• ænk frænka, grænka, vænkast
Þetta gildir einnig í samsettum orðum:
• bóngóður (bón + góður), tónkvísl (tón + kvísl), grængresi (græn + gresi), grænkál (græn + kál)
5. Sérhljóðar á undan gi og gj
Ólíkum sérhljóðum er haldið aðgreindum í rithætti á undan gi og gj þótt munur þeirra heyrist aðeins í máli lítils hluta landsmanna.
Ritháttur |
Framburður |
Dæmi |
a eða æ |
æ/aj |
agi – ægir |
e eða ei |
ei/ej |
vegi (af vegur) – leigja |
i eða í |
í/ij |
stigi – vígi |
y eða ý |
í /ij |
lygi – drýgja |
ö eða au |
au/öj |
lögin (af lög) – laugin (af laug) |
o |
oj |
bogi |
u |
uj |
hugi |
Oftast má finna upprunalegt sérhljóð með því að finna stofn orðsins, með því að skoða aðrar beygingarmyndir þess eða leita skyldra orða þar sem sérhljóðið er ekki á undan gi eða gj. Þar heyrist hvort rita á grannan eða breiðan sérhljóða.
Þegar borið er fram skýrt ó eða ú á undan gi eða gj er ritað svo, til dæmis krógi, nógir (af nógur), múgi, smjúgi (af smjúga).
Athugið að þegar ritað er gi og gj heyrist g-hljóðið ekki, heldur j. Það þarf því að leita þess í öðrum myndum, sjá § 8.
5.2 Fallorð
Finna þarf beygingarmynd eða skylt orð þar sem sérhljóðið er ekki á undan gi eða gj.
• Grannur sérhljóði: agi (sbr. aga), hagi (sbr. haga), hagir (sbr. hagur), lagi (sbr. lag), laginn (sbr. lagnir, laga), magi (sbr. maga), ragir (sbr. ragur), degi (sbr. dag), duglegi (sbr. duglegur), fallegir (sbr. fallegur), feginn (sbr. fegnir, fagna), legi (sbr. lögur), leiðinlegir (sbr. leiðinlegur), tregir (sbr. tregur), þegi (sbr. þega, til dæmis blóðþega), landsiginu (sbr. landsig), stigi (sbr. stiga), boginn (sbr. bognir), logi (sbr. loga), togið (sbr. tog), vogi (sbr. vog, vogur), áhugi (sbr. áhuga), duginn (sbr. dug (af dugur)), flugi (sbr. flug), kunnugir (sbr. kunnugur), tuginn (sbr. tugur), flygildi (sbr. flug, flygi (af fljúga)), lygi (sbr. lygar), lyginn (sbr. lygnir, lygar), drögin (sbr. drög), fjörugir (sbr. fjörugur), lögin (sbr. lög), sögin (sbr. sög)
• Breiður sérhljóði: stíginn (sbr. stígur), bljúgir (sbr. af bljúgar), hægir (sbr. hægur), sæginn (sbr. sægur), drauginn (sbr. draugur), laugin (sbr. laug), deigið (sbr. deig), leigjandi (sbr. leiga), seigur (sbr. seigur), teigirnir (sbr. teigur), veiginn (sbr. veigur), teyginn (sbr. teygnir), teygja (sbr. taug)
Ýmist er ritað tagi eða tæi í af (ýmsu/sama/þessu) tagi/tæi.
Athugið að stundum gefa aðrar beygingarmyndir eða skyld orð ekki nægar eða réttar vísbendingar. Í eftirfarandi orðum er til dæmis ritaður grannur sérhljóði í öllum beygingarmyndum: laginn, spegill, snigill, tygja, aktygi, Reginn, Huginn.
5.3 Veikar sagnir og núþálegar sagnir
Finna þarf nafnhátt eða aðra orðmynd þar sem sérhljóðið er ekki á undan gi eða gj.
• Grannur sérhljóði: lagið (sbr. laga), sagið (sbr. saga), segi (sbr. segði, sagt), þegið (sbr. þagði, þegði), sligið (sbr. sliga), sogi (sbr. soga), togið (sbr. toga), athugi (sbr. athuga), dugir (sbr. duga), ryksugið (sbr. ryksuga)
• Breiður sérhljóði: vígja (sbr. vígði), lógir (sbr. lóga), bægja (sbr. bægði), flægi (sbr. flá, (hann) flær), hlægja (sbr. hlægði, athugið hlæja er önnur sögn), hægi (sbr. hægja), lægir (sbr. lægja), ægja, ægi (sbr. ægði), eigið (sbr. eiga), eygja (sbr. eygði)
5.4 Sterkar sagnir
Af 1. kennimynd sterkra sagna sést hvort rita á grannan eða breiðan sérhljóða á undan gi í nútíðarmyndum þeirra, en af 3. kennimynd má leiða rithátt sérhljóða í viðtengingarhætti þátíðar og lýsingarhætti þátíðar.
Kennimyndir sterkra sagna má finna með því að setja sögnina í samhengi:
Sterkar sagnir: að bíta – ég beit – við bitum – ég hef bitið
1. kenni- mynd |
3. kenni- mynd |
nútíðar- myndir |
viðtengingarháttur þátíðar |
lýsingarháttur þátíðar |
hníga |
hnigum |
hnígið, hnígi |
hnigi, hnigjum |
hniginn |
míga |
migum |
mígið, mígi |
migi, migjuð |
miginn |
síga |
sigum |
sígið, sígi |
sigi, sigjum |
siginn |
stíga |
stigum |
stígið, stígi |
stigi, stigjum |
stiginn |
fljúga |
flugum |
fljúgið, fljúgi |
flygi, flygjum |
floginn |
ljúga |
lugum |
ljúgið, ljúgi |
lygi, lygjuð |
loginn |
sjúga |
sugum |
sjúgið, sjúgi |
sygi, sygjuð |
soginn |
smjúga |
smugum |
smjúgið, smjúgi |
smygi, smygjum |
smoginn |
Í nokkrum sögnum gefa kennimyndirnar ekki skýra leiðsögn um þátíðarmyndir. Þær þarf að læra sérstaklega:
1. kenni- mynd |
3. kenni- mynd |
nútíðar- myndir |
viðtengingarháttur þátíðar |
lýsingarháttur þátíðar |
draga |
drógum |
dragið, dragi |
drægi |
dreginn |
vega |
vógum |
vegið, vegi |
vægi |
veginn |
liggja |
lágum |
liggið, liggi |
lægi |
leginn |
þiggja |
þágum |
þiggið, þiggi |
þægi |
þeginn |
slá |
slógum |
sláið, slái |
slægi |
sleginn |
hlæja |
hlógum |
hlæið, hlæi |
hlægi |
hleginn |
6. y, ý, ey
Í eldri íslensku var í framburði gerður greinarmunur á i, í, ei og y, ý, ey. Þessi munur er nú horfinn úr framburði en er enn haldið í stafsetningu. Við stafsetningu þarf því að hyggja að uppruna orða og skyldleika við önnur orð.
6.2 Aðalregla
Oft má hafa stuðning af skyldum orðum og orðmyndum og þá er aðalreglan þessi:
• y er ritað þar sem o, u, ju er að finna í skyldum orðum og orðmyndum
• ý er ritað þar sem ú, jú, jó er að finna í skyldum orðum og orðmyndum
• ey er ritað þar sem au er að finna í skyldum orðum og orðmyndum
6.2.1 y er ritað þar sem o, u, ju er að finna í skyldum orðum og orðmyndum, eins og hér er sýnt með nokkrum dæmum:
y |
o |
kyssa, kyssilegur |
koss |
hryssa |
hross |
syfja, syfjaður, syfjulegur |
sofa |
synir |
sonur |
fyl, fylfull |
folald |
fyrna, fyrnd, fyrndur |
forn |
hyrna, hyrning |
horn |
lygn, lygna |
logn |
tyrfa |
torf |
þyrping, þyrpast |
þorp |
y |
u |
fyllri, fyllstur, fylla, magafylli |
fullur |
grynnri, grynnstur, grynni, ógrynni |
grunnur |
þyngri, þyngstur, þyngja, þyngsli |
þungur |
brynna, brynning |
brunnur |
dylja |
dulur |
gylling, gylla |
gull |
lygi, lygari |
lugu (af ljúga) |
ryk |
ruku (af rjúka) |
þylja |
þula, þulur |
þytur |
þutu (af þjóta) |
y |
ju |
byggi |
bjuggu |
hyggi |
hjuggu |
6.2.2 ý er ritað þar sem ú, jú, jó er að finna í skyldum orðum og orðmyndum, eins og hér er sýnt með nokkrum dæmum:
ý |
ú |
hýsa, hýsi, hýsing |
hús |
rýma, rými, rýming |
rúm |
fýla, fýldur |
fúll |
hýða, hýði, hýðing |
húð |
rýna, rýni, rýning |
rún |
býli, býfluga |
bú |
sýra |
súr |
sýta |
sút |
ý |
jú |
dýpi |
djúpur |
fýkur |
fjúka |
mýkt, mýking |
mjúkur |
rýkur |
rjúka |
sýki, sýkill |
sjúkur |
ý |
jó |
sýna, sýni, sýning |
sjón |
lýsa, lýsi, lýsing |
ljós |
frýs |
frjósa |
kýs |
kjósa |
þýfi |
þjófur |
þýtur |
þjóta |
6.2.3 ey er ritað þar sem au er að finna í skyldum orðum og orðmyndum, eins og hér er sýnt með nokkrum dæmum:
ey |
au |
dreyma, dreyminn |
draumur |
reykur, reykja, reyking |
rauk (af rjúka) |
leysa, leysing |
laus |
deyfa, deyfð |
daufur |
eygja |
auga |
deyða |
dauður |
feykja |
fauk (af fjúka) |
keypti |
kaupa, kaup |
teygja |
taug |
þeyta |
þaut (af þjóta) |
Athugið sérstaklega viðtengingarhátt þátíðar sterkra sagna sem dreginn er af 3. kennimynd (þátíð fleirtölu). Ef 3. kennimynd hefur rótarsérhljóðið u fær viðtengingarháttur þátíðar y, eins og hér er sýnt með nokkrum dæmum.
1. KENNIMYND nafnháttur |
2. KENNIMYND þátíð eintölu |
3. KENNIMYND þátíð fleirtölu |
4. KENNIMYND lýsingarháttur þátíðar |
brjóta |
braut |
brutum |
brotið |
→ |
|
→ |
|
(þótt ég) brjóti |
|
(þótt ég) bryti |
|
|
|
|
|
1. KENNIMYND nafnháttur |
2. KENNIMYND þátíð eintölu |
3. KENNIMYND þátíð fleirtölu |
4. KENNIMYND lýsingarháttur þátíðar |
binda |
batt |
bundum |
bundið |
→ |
|
→ |
|
(þótt ég) bindi |
|
(þótt ég) byndi |
|
|
|
|
|
1. KENNIMYND nafnháttur |
2. KENNIMYND þátíð eintölu |
3. KENNIMYND þátíð fleirtölu |
4. KENNIMYND lýsingarháttur þátíðar |
kjósa |
kaus |
kusum |
kosið |
→ |
|
→ |
|
(þótt ég) kjósi |
|
(þótt ég) kysi |
|
|
|
|
|
1. KENNIMYND nafnháttur |
2. KENNIMYND þátíð eintölu |
3. KENNIMYND þátíð fleirtölu |
4. KENNIMYND lýsingarháttur þátíðar |
finna |
fann |
fundum |
fundið |
→ |
|
→ |
|
(þótt ég) finni |
|
(þótt ég) fyndi |
|
6.4 Önnur orð
Oft getur þó reynst örðugt að finna skyld orð eða orðmyndir sem skorið geti úr um hvort rita skuli i eða y, í eða ý, ei eða ey og þá er nauðsynlegt að leita til orðabóka.
6.5 Nokkur samhljóða orð
Sérstaka gát þarf að hafa þar sem til eru tvö samhljóða orð með ólíka merkingu og ólíkan rithátt, eins og sýnt er með nokkrum dæmum hér að neðan.
híði ‘bæli’ |
hýði, bananahýði (sbr. húð) |
kirtill (líffæri), skjaldkirtill |
kyrtill (flík), fermingarkyrtill |
leiti ‘hæð, hóll’, á næsta leiti |
leyti, að ýmsu leyti, fyrir mitt leyti |
skin, sólskin, skin og skúrir (sbr. skína) |
skyn ‘vit; tilgangur’, gefa eitthvað í skyn, skyni skroppinn |
tína ‘safna’, tína ber, fólk fór að tínast burtu |
týna ‘glata, missa’, týna einhverju niður, týna vitinu (sbr. tjón) |
eiði ‘grandi’ |
eyði (sbr. auður), leggjast í eyði |
7. f eða v
7.1 Aðalregla
Skýr munur er oftast á framburði f og v í upphafi orða og upphafi síðari liðar í samsettum orðum. Inni í orði fellur framburður þeirra hins vegar oftast saman. Í sumum aðkomuorðum og nöfnum heyrist þó munur á framburði þessara hljóða inni í orði og er þá framburði fylgt um ritun.
Í upphafi orðs eða upphafi síðari liðar í samsetningu > ritað er eftir framburði (sjá § 7.2)
Ef f eða v inni í orði heyrist eingöngu í sumum beygingarmyndum > ritað er v (sjá § 7.3.1)
Ef vafahljóðið er í viðskeyti > ritað er v (sjá § 7.3.2)
Ef f eða v er inni í orði, tilheyrir rót og helst í allri beygingu > ritað er f (sjá § 7.3.3)
f eða v í aðkomuorðum > yfirleitt er fylgt framburði um ritun (sjá § 7.3.4)
Ef vafahljóðið er á undan g eða k > ritað er eftir uppruna (sjá § 7.3.5)
7.2 f eða v í upphafi orðs eða upphafi síðari liðar í samsetningu: ritun fer eftir framburði
Ritað er f eða v eftir framburði í upphafi orðs eða upphafi síðari liðar í samsetningu.
fara – vara
fer – ver
ferð – verð
fíl – víl
fæla – væla
ófæra – óværa
tilboðsferð – tilboðsverð
7.3 f eða v inni í orði
Inni í orði fellur framburður f og v yfirleitt saman og er þá ekki hægt að hafa stoð af framburði við ritun (sjá þó § 7.3.4). Eftirfarandi reglur eru um ritun slíkra vafahljóða.
7.3.1 Ef v-hljóð heyrist eingöngu í sumum beygingarmyndum skal rita v
Ef v-hljóð heyrist eingöngu í sumum beygingarmyndum skal rita það með v.
• mávi, mávar (af már), sjávar (af sjár), snævi, snævar (af snær), stöðvar, stöðvum, stöðva (af stöð), sævi, sævar (af sær), sölvum, sölva (af söl), söngvar, söngvum, söngva (af söngur), örvar, örvum, örva (af ör)
7.3.2 Ef v-hljóð heyrist í viðskeyti skal rita v
Í viðskeytum orða skal rita v. Dæmi um orð með viðskeyti eru höggva (sbr. högg) og frævill (sbr. fræ).
• atgervi, Böðvar, bölv, bölva, fjörvi, frævill, frævun, fölskvi, glöggva, gervi, gerviefni, hrökkva, hvaðanæva, höggva, klökkvi, mjölvi, myrkvi, myrkvun, mölva, möskvi, njörva, Njörvi, nýsnævi, nökkvi, ofurölvi, rökkva, Röskva, skrökva, slæva, slökkvari, slöngva, stöðvun, stökkva, Tryggvi, tvisvar, tölva, uppgötvun, vöðvi, vökvi, völva, Yngvi, þrisvar, þröngva, ölvaður, örva
7.3.3 Ef v-hljóð tilheyrir rót skal rita f
Skrifa skal f ef vafahljóð inni í orði tilheyrir rót og helst í öllum myndum orðsins.
• andæfa, arfi, auðæfi, álfur, efstur, erfiður, gæfa, hafa, hrjúfur, hverfa, kálfur, leyfi, lófi, morfín, skræfa, öræfi
Athugið að ritað er æva-, ævagamall, ævi, ævinlega, ævintýri.
Hliðarmynd við már er mávur (máv, mávi, mávs).
7.3.4 Í aðkomuorðum fer ritun f og v eftir framburði
Í aðkomuorðum er stundum munur á framburði f(f) og v inni í orði á milli sérhljóða eða á eftir samhljóði. Yfirleitt er fylgt framburði við ritun: Þegar f er borið fram skal rita f en annars v.
• Afríka, efidrín, endorfín, grafík, katastrófa, safír, slaufa (einnig slauffa), sófi (einnig sóffi), sýfilis
• buff, diffra, gaffall, gíraffi, graffari, gúffa, kaffi, koffort (einnig kofort), múffa, offra, riffill, saffran, siffon, skúffa, Soffía, töffari
• akvamarín, avókadó, bavíani, bevís, bolsévíki, bossanóva, bravó, dívan, Dravídi, Eva, evra, Evrópa, farvi, gvava, Júgóslavía, kavaler, kíví, levíti, Malaví, Moldavía, ólíva (einnig ólífa), prívat, próvólóneostur, revía, savannabelti, salvi, skavanki, Slavi, Taívan
Ýmsar undantekningar eru þó frá því að framburði sé fylgt um ritun aðkomuorða, til dæmis trafali, moldóvskur, nevtróna.
7.3.5 Ef v-hljóð fer á undan g skal fara eftir uppruna um ritun þess
Ef v-hljóð fer á undan g inni í orði er ritað f ef það er í stofninum sem orðið er leitt af:
• göfga, göfgi (af göfugur), höfgi (af höfugur), lífga, lífgun (af líf), laufgast (af lauf), þýfga (af þjófur, sbr. þýfi)
Athugið að ritað er v í orðunum frjóvga, frjóvgun (af frjór) og sljóvga (af sljór) af því að v-hljóðið þar tilheyrði upprunalega viðskeyti.
7.4 f eða v í nöfnum
Valfrjálst er hvort ritað er v eða f í eftirfarandi nöfnum:
Elva _ _ Elfa
Elvar _ _ Elfar
Gústav _ _ Gústaf
Jörvi _ _ Jörfi
Svava _ _ Svafa
Svavar _ _ Svafar
Nauðsynlegt er að gæta að þeim rithætti sem nafnberar viðhafa sjálfir.
7.5 fl – bl – ffl – vl
Orð sem borin eru fram með bl eru vanalega rituð með fl.
• afl, dauðyfli, dufl, Dyflinn, dýflissa, efla, fafla, fíflast, kartafla, kefla, tafl, truflun, vafla
Nokkur orð hafa ritháttinn bl og eru þau annaðhvort aðkomuorð, til dæmis rúbla, eða hljóðlíkingar, til dæmis babl.
• babl, babla, Biblía, dobl, dobla, mubla, obláta, rúbla
Flest orð sem borin eru fram með fl inni í orði eru rituð með ffl.
• karaffla (einnig karafla), múfflonfé, riffla, rifflaður, rafflesía, taffla, triffli, trufflusveppur, vaffla, vöfflujárn
Athugið að ritað er teflon.
Orðið rövl og skyld orð (rövla, rövlari) er ritað þannig.
7.6 fn/m
Orð sem borin eru fram með bn eru rituð með fn. Undantekning er orðið þybbni og nokkrar beygingarmyndir lo. þybbinn.
• áhöfn, efni, hrafn, höfn, jafn, nefna, ofn, rifna, safna, sofna, stofnun, svefn, tyrfni
Í þátíð og lýsingarhætti þátíðar af sögnum með fn í nafnhætti skal rita fn þótt það sé borið fram sem m.
efndi, efnt (af efna)
hefndi, hefnt (af hefna)
nefndi, nefnt (af nefna)
Sama máli gegnir um nafnorð leidd með tannhljóðsviðskeyti af þessum sögnum, svo og hvorugkynið af lýsingarorðinu jafn.
• efndir, hefnd, nefnd, jafnt
8. g
8.1 Aðalregla
Bókstafurinn g táknar ólík hljóð eins og heyrist til dæmis með samanburði orðanna gala og laga. Yfirlit yfir helstu tilbrigði:
grunur og gefa: Hér er lokhljóð, sem myndast þannig að tungan leggst alveg upp að gómnum örskamma stund og lokar þannig fyrir allt loftstreymi.
saga og sagt: Hér er önghljóðs-g, sem myndast þannig að loftið smýgur út gegnum öng (þrengsli) og nokkurs konar hvæs heyrist.
skóg og birgðir: Hér heyrist oft ekkert g-hljóð, eða mjög dauft.
segja, laugin og skógi: Hér heyrist j-hljóð.
Ekki heyrist alltaf munur á g og gg í framburði, til dæmis á undan öðrum samhljóða í sagt og byggt.
Í framburði geta g og l eða n í hljóðasamböndunum gl og gn víxlast og g orðið mjög ógreinilegt, til dæmis í rigndi og sigldi.
Reglur um ritun g eru nokkuð mismunandi eftir því hvort í hlut eiga nafnorð og lýsingarorð, veikar sagnir eða sterkar sagnir. Algengast er að rita g í öllum myndum orðs ef það heyrist í einhverri beygingarmynd þess, en oft þarf að leita skyldra orða. Í allmörgum sögnum er þó g í sumum beygingarmyndum en ekki öðrum. Gæta þarf sérstaklega að stafavíxlum og hljóðaumhverfi þar sem g er sérlega ógreinilegt.
8.2 g heyrist oft illa eða ekki á eftir á, ó og ú, einnig á undan i og j
Á eftir á, ó og ú og á undan i og j þarf oft að leita að öðrum beygingarmyndum eða skyldum orðum til að finna hvort rita á g. Ef það dugir ekki þarf að leita til orðabóka.
Ef uppflettimynd nafnorða og lýsingarorða í orðabók hefur g er það ritað í öllum beygingarmyndum, til dæmis bljúgir af bljúgur og hrúgur af hrúga. Í flestum sögnum er ritað g í öllum myndum ef það heyrist í einhverri beygingarmynd eða finnst í skyldu orði. Athuga þarf sérstaklega þátíðarmyndir sagnanna þiggja (sjá § 8.5.2), flá, slá og hlæja (sjá § 8.6.4) og draga, liggja og vega (sjá § 8.6.3).
8.2.1 g eða ekki á eftir á, ó og ú
Á eftir á, ó og ú heyrist g varla eða ekki. Það er til að mynda ekki framburðarmunur á orðunum lóga (‘aflífa’) og lóa (fugl). Athuga þarf sérstaklega að f getur líka verið ógreinilegt á eftir þessum hljóðum þannig að lófa (af lófi) hljómar líka eins og þessi orð. Leita þarf annarra beygingarmynda eða skyldra orða og oft þarf að styðjast við orðabók:
• bljúgur, bjúga, fágaður, hógvær, hrúga, krógi, kúga, lóga, ljúga, lúga, nógur, plága, skógur, slóg, þágufall
8.2.2 g eða ekki á undan i og j
Á undan i og j heyrist ekki hvort g er í stofni. Ekki er framburðarmunur á orðunum æi (upphrópun) og ægi (þolfall/þágufall af ægir). Leita þarf annarra beygingarmynda eða skyldra orða:
• baugi (sbr. baugur), lygi (sbr. lygar, lygasaga), leigjandi (sbr. leiga)
Ef skyld orð finnast ekki þarf að leita í orðabók, sbr. til dæmis ægir.
8.3 Stafavíxl verða í hljóðasamböndunum gl og gn
Víxl gl/lg og gn/ng, með veikum framburði g eða brottfalli, verða einkum í þátíð veikra sagna, sbr. sigldi, rigndi (sbr. sigla, rigna). Ritháttur er þá eins og í nafnhættinum. Slík víxl koma einnig fyrir í fleiri orðum, til dæmis gegndarlaus (sbr. gegna). Sjá um stafavíxl í § 20.
8.4 Nafnorð og lýsingarorð: Ritað er g ef það heyrist í einhverri beygingarmynd orðs eða skyldum orðum
8.4.1 Ef g heyrist í einhverri beygingarmynd orðs er það ritað í öllum beygingarmyndum með og án greinis:
|
|
NAFNORÐ |
|
|
|
ET. |
NF. (hér er) |
múgur |
lygi |
laug |
laugin |
|
ÞF. (um) |
múg |
lygi |
laug |
laugina |
|
ÞGF. (frá) |
múgi |
lygi |
laug |
lauginni |
|
EF. (til) |
múgs |
lygi |
laugar |
laugarinnar |
FT. |
NF. (hér eru) |
múgar |
lygar |
laugar |
laugarnar |
|
ÞF. (um) |
múga |
lygar |
laugar |
laugarnar |
|
ÞGF. (frá) |
múgum |
lygum |
laugum |
laugunum |
|
EF. (til) |
múga |
lyga |
lauga |
lauganna |
|
|
LÝSINGARORÐ |
|
|
ET. |
NF. (hér er) |
lágur |
nógur |
þægur |
|
ÞF. (um) |
lágan |
nógan |
þægan |
|
ÞGF. (frá) |
lágum |
nógum |
þægum |
|
EF. (til) |
lágs |
nógs |
þægs |
FT. |
NF. (hér eru) |
lágir |
nógir |
þægir |
|
ÞF. (um) |
lága |
nóga |
þæga |
|
ÞGF. (frá) |
lágum |
nógum |
þægum |
|
EF. (til) |
lágra |
nógra |
þægra |
Fleiri dæmi um orð þar sem g er ritað í öllum beygingarmyndum:
• NAFNORÐ: dagur, deig, gagn, hagur, leg, logi, lögur, plógur, rúgur, sægur, tregi, víg
• LÝSINGARORÐ: bljúgur, fagur, magur, nægur, ragur, slægur, viljugur
8.4.2 Ritað er g ef það heyrist í skyldu orði:
• bágindi (sbr. bágur, bágt), birgðir/birgða (sbr. birgur, birgja), einvígi (sbr. víg), fiskgengd (sbr. ganga), gegndarlaus (sbr. gegna), leigjandi (sbr. leiga), þægindi (sbr. þægur)
8.5 Veikar sagnir: Ef g heyrist í einhverri kennimynd er það ritað í öllum beygingarmyndum, eins þótt hljóðavíxl eða brottfall verði í framburði
Veikar sagnir enda á -aði, -ði, -di eða -ti í þátíð 1. persónu eintölu:
ég sagaði, ég sagði, ég samdi, ég synti.
Kennimyndir veikra sagna eru þrjár og þær má finna með því að setja sögnina í samhengi:
að saga – ég sagaði (í gær) – ég hef sagað
8.5.1 Ef g heyrist í einhverri kennimynd er það ritað í öllum beygingarmyndum:
NAFNHÁTTUR |
ÞÁTÍÐ |
LÝSINGARHÁTTUR ÞÁTÍÐAR |
EINNIG |
duga |
dugði |
dugað |
dygði, dygðir, dygðuð o.s.frv. |
leigja |
leigði |
leigt |
leigjum, leigi, leigið o.s.frv. |
segja |
sagði |
sagt |
segjum, segi, segið o.s.frv. |
þegja |
þagði |
þagað |
þegjum, þegi, þegið o.s.frv. |
sveigja |
sveigði |
sveigt |
sveigjum, sveigi, sveigið o.s.frv. |
rægja |
rægði |
rægt |
rægjum, rægi, rægið o.s.frv. |
8.5.2 Í þátíð heyrast tvö g ekki alltaf, ritháttur er oftast eins og í nafnhættinum:
NAFNHÁTTUR |
ÞÁTÍÐ |
LÝSINGARHÁTTUR ÞÁTÍÐAR |
byggja |
byggði |
byggt |
hugga |
huggaði |
huggað |
skyggna |
skyggndi |
skyggnt |
tryggja |
tryggði |
tryggt |
tyggja |
tuggði |
tuggið |
yggla |
yggldi |
ygglt |
Undantekningar frá þessu eru sagnirnar hyggja og leggja, sem ritaðar eru með g í þátíð og þiggja sem beygist óreglulega:
FRAMSÖGUHÁTTUR |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
|
ET. |
1. (ég) |
hygg |
hugði |
legg |
lagði |
þigg |
þáði |
|
2. (þú) |
hyggur |
hugðir |
leggur |
lagðir |
þiggur |
þáðir |
|
3. (hann) |
hyggur |
hugði |
leggur |
lagði |
þiggur |
þáði |
FT. |
1. (við) |
hyggjum |
hugðum |
leggjum |
lögðum |
þiggjum |
þáðum |
|
2. (þið) |
hyggið |
hugðuð |
leggið |
lögðuð |
þiggið |
þáðuð |
|
3. (þeir) |
hyggja |
hugðu |
leggja |
lögðu |
þiggja |
þáðu |
VIÐTENGINGARHÁTTUR |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
|
ET. |
1. (þótt ég) |
hyggi |
hygði |
leggi |
legði |
þiggi |
þægi |
|
2. (þótt þú) |
hyggir |
hygðir |
leggir |
legðir |
þiggir |
þægir |
|
3. (þótt hann) |
hyggi |
hygði |
leggi |
legði |
þiggi |
þægi |
FT. |
1. (þótt við) |
hyggjum |
hygðum |
leggjum |
legðum |
þiggjum |
þægjum |
|
2. (þótt þið) |
hyggið |
hygðuð |
leggið |
legðuð |
þiggið |
þægjuð |
|
3. (þótt þeir) |
hyggi |
hygðu |
leggi |
legðu |
þiggi |
þægju |
8.5.3 Í þátíð geta gl/lg og gn/ng víxlast í framburði eða g-hljóðið horfið, ritháttur er þá eins og í nafnhættinum. Sjá § 20.
8.6 Sterkar sagnir: Yfirleitt heyrist í framburði hvort rita á g en frá því eru nokkrar undantekningar
Sterkar sagnir eru endingarlausar í þátíð 1. og 3. persónu eintölu en enda á -st í þátíð 2. persónu eintölu: ég beit (1. persóna), þú beist (2. persóna), hann/hún/það beit (3. persóna).
Kennimyndir sterkra sagna eru fjórar sem finna má með því að setja sögnina í samhengi:
að bíta – ég beit – við bitum – ég hef bitið
8.6.1 Yfirleitt heyrist í framburði nafnháttar hvort rita á g:
1. KENNIMYND |
2. KENNIMYND |
3. KENNIMYND |
4. KENNIMYND |
hníga |
hneig |
hnigum |
hnigið |
síga |
seig |
sigum |
sigið |
stíga |
steig |
stigum |
stigið |
syngja |
söng |
sungum |
sungið |
Athugið að auk þátíðarmyndanna hneig og steig eru einnig til myndirnar hné og sté.
8.6.2 Í fljúga, ljúga, sjúga og smjúga er ritað g í öllum myndum þó að það sé ógreinilegt í nafnhætti og viðtengingarhætti:
1. KENNIMYND |
2. KENNIMYND |
3. KENNIMYND |
4. KENNIMYND |
EINNIG |
fljúga |
flaug |
flugum |
flogið |
flygi, flygjum o.s.frv. |
ljúga |
laug |
lugum |
logið |
lygi, lygjum o.s.frv. |
sjúga |
saug |
sugum |
sogið |
sygi, sygjum o.s.frv. |
smjúga |
smaug |
smugum |
smogið |
smygi, smygjum o.s.frv. |
8.6.3 Í draga, liggja og vega er ekki ritað g í 2. kennimynd og öðrum myndum þátíðar eintölu í framsöguhætti.
1. KENNIMYND |
2. KENNIMYND |
3. KENNIMYND |
4. KENNIMYND |
draga |
dró |
drógum |
dregið |
liggja |
lá |
lágum |
legið |
vega |
vó |
vógum |
vegið |
Athugið þó að g er ritað í þátíð fleirtölu í framsöguhætti og í öllum myndum viðtengingarháttar.
FRAMSÖGUHÁTTUR |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
|
ET. |
1. (ég) |
dreg |
dró |
ligg |
lá |
veg |
vó |
|
2. (þú) |
dregur |
dróst |
liggur |
lást |
vegur |
vóst |
|
3. (hann) |
dregur |
dró |
liggur |
lá |
vegur |
vó |
FT. |
1. (við) |
drögum |
drógum |
liggjum |
lágum |
vegum |
vógum |
|
2. (þið) |
dragið |
dróguð |
liggið |
láguð |
vegið |
vóguð |
|
3. (þeir) |
draga |
drógu |
liggja |
lágu |
vega |
vógu |
VIÐTENGINGARHÁTTUR |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
|
ET. |
1. (þótt ég) |
dragi |
drægi |
liggi |
lægi |
vegi |
vægi |
|
2. (þótt þú) |
dragir |
drægir |
liggir |
lægir |
vegir |
vægir |
|
3. (þótt hann) |
dragi |
drægi |
liggi |
lægi |
vegi |
vægi |
FT. |
1. (þótt við) |
drögum |
drægjum |
liggjum |
lægjum |
vegum |
vægjum |
|
2. (þótt þið) |
dragið |
drægjuð |
liggið |
lægjuð |
vegið |
vægjuð |
|
3. (þótt þeir) |
dragi |
drægju |
liggi |
lægju |
vegi |
vægju |
8.6.4 Í flá, slá og hlæja er ekki ritað g í 1. og 2. kennimynd:
1. KENNIMYND |
2. KENNIMYND |
3. KENNIMYND |
4. KENNIMYND |
flá |
fló |
flógum |
flegið |
slá |
sló |
slógum |
slegið |
hlæja |
hló |
hlógum |
hlegið |
Einnig er ritað g í öllum myndum viðtengingarháttar:
FRAMSÖGUHÁTTUR |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
|
ET. |
1. (ég) |
flæ |
fló |
slæ |
sló |
hlæ |
hló |
|
2. (þú) |
flærð |
flóst |
slærð |
slóst |
hlærð |
hlóst |
|
3. (hann) |
flær |
fló |
slær |
sló |
hlær |
hló |
FT. |
1. (við) |
fláum |
flógum |
slægjum |
slógum |
hlæjum |
hlógum |
|
2. (þið) |
fláið |
flóguð |
slægið |
slóguð |
hlæið |
hlóguð |
|
3. (þeir) |
flá |
flógu |
slægja |
slógu |
hlæja |
hlógu |
VIÐTENGINGARHÁTTUR |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
NÚTÍÐ |
ÞÁTÍÐ |
|
ET. |
1. (þótt ég) |
flái |
flægi |
slái |
slægi |
hlæi |
hlægi |
|
2. (þótt þú) |
fláir |
flægir |
sláir |
slægir |
hlæir |
hlægir |
|
3. (þótt hann) |
flái |
flægi |
slái |
slægi |
hlæi |
hlægi |
FT. |
1. (þótt við) |
fláum |
flægjum |
sláum |
slægjum |
hlæjum |
hlægjum |
|
2. (þótt þið) |
fláið |
flægjuð |
sláið |
slægjuð |
hlæið |
hlægjuð |
|
3. (þótt þeir) |
flái |
flægju |
slái |
slægju |
hlæi |
hlægju |
8.6.5 Sagnirnar deyja, hlæja og hlægja eru vandritaðar
Sögnin deyja er g-laus í öllum myndum: deyja – dó – dóum – dáið.
Sagnirnar hlæja og hlægja hafa ólíka merkingu og beygingu. Hlæja beygist sterkt (hlæja – hló) og merkir að ‘gefa frá sér hláturhljóð’ en hlægja beygist veikt og merkir að ‘valda einhverjum hlátri’ „þetta hlægir mig“. Sjá beygingu hlæja í § 8.6.4.
9. hv og kv
9.1 Í fornu máli var gerður greinarmunur í framburði á hv og kv í upphafi orða. Þessi greinarmunur er nú horfinn úr máli meirihluta landsmanna og orð sem áður höfðu hv eru nú borin fram með kv. Þessi greinarmunur er þó enn gerður í stafsetningu. Oft getur reynst nauðsynlegt að leita stuðnings í orðabók um hvort rita skuli hv eða kv.
9.2 Fornöfn og spurnarorð eru ætíð rituð með hv:
• hvað, hvaða, hvaðan, hvar, hvenær, hver, hvernig, hversu, hví, hvílíkur, hvor, hvort
9.3 Gætið sérstaklega að þessum orðapörum:
hvalir (dýrategund) _ _ kvalir (þrautir)
hvelja (húð) _ _ kvelja (pína)
hver (uppspretta) _ _ kver (lítil bók)
hviða (roka) _ _ kviða (kvæði)
hvika (hörfa, hopa) _ _ kvika (so. hreyfast, no. hold)
hvísl (hljóðskraf) _ _ kvísl (grein)
10. j
10.1 Aðalregla: Ekki er ritað j ef j-hljóð heyrist ekki í framburði
Í íslenskri stafsetningu eru stundum skrifuð hljóð sem heyrast ekki í framburði (til dæmis g í margt). Það gildir ekki um j. Bókstafurinn j er aldrei ritaður nema j-hljóð heyrist í framburði.
10.2 Aldrei er ritað j á eftir í og ei
Bókstafurinn j er aldrei ritaður á eftir í og ei.
• Svíar, Svíum, olía, olíu, sveia, bleia (bleyja)
10.3 Ritun j á eftir k og g: Sérhljóðið á eftir ræður
10.3.1 Ritað er j ef á eftir fer a, á, ó, u, ú eða ö ef j heyrist í framburði:
• kjarr, gjall, kjáni, gjár, kjósa, gjósa, kjuði, kjúka, kjöt, gjöf
10.3.2 Ekki er ritað j ef á eftir fer e, ei, ey, i, í, y, ý eða æ (þótt j heyrist í framburði):
• kerti, geta, fangelsi, keila, geispa, keyra, geyma, reykelsi, kista, gista, kíló, Gísli, kynning, gylling, kýs, gýs, kæfa, gæfa
• hangi (af hanga), hringir (af hringja), spryngi (af springa), syngið (af syngja)
10.3.3 Ekki er ritað j ef á eftir fer e nema í fleirtölu orða sem enda á -jandi og í fleirtölu orðsins fjandi (sbr. § 3.3.2):
fylgjandi – fylgjendur, fylgjendum, fylgjenda
leigjandi – leigjendur, leigjendum, leigjenda
syrgjandi – syrgjendur, syrgjendum, syrgjenda
sækjandi – sækjendur, sækjendum, sækjenda
þiggjandi – þiggjendur, þiggjendum, þiggjenda
fjandi – fjendur, fjendum, fjenda
Athugið að ekki er ritað é á eftir k og g: ker, geta. Sjá um é í § 3.
10.4 Ritun j á undan i, a og u í endingum: Framburður og undanfarandi hljóð ráða
10.4.1 j er ritað á undan a og u samkvæmt framburði:
• segja, segjum, tækja, tækjum, hlæja, hlæjum, heyja, heyjum, hlýjar, hlýjum
Ekki er þó ritað j á undan a og u ef í eða ei fer næst á undan (sbr. § 10.2):
• Svíar, Svíum, olía, olíu, sveia, bleia (bleyja)
10.4.2 j er ritað á undan i samkvæmt framburði:
• telji, semji, venji, setji, gleðji
Ekki er þó ritað j ef g, k, ey, ý eða æ fara næst á undan (þótt j heyrist þar í framburði):
• segir, tæki, heyið, hlýir, hlæi, nýir
10.5 Ritun j á mörkum samsettra orða
Þegar fyrri hluti samsetts orðs endar á ey, ý eða æ og síðari hlutinn hefst á sérhljóða skal ekki rita j á milli orðhluta.
• heyafli, heyannir, nýafstaðinn, nýársdagur, nýorpinn, Sæunn
Undantekning er nafnið Eyjólfur sem er ritað með j þrátt fyrir regluna.
11. m og mm
Munurinn á m og mm heyrist yfirleitt vel í framburði og því er yfirleitt enginn vafi á hvort rita skuli m eða mm. Í örfáum orðum (fram, um) er þó borið fram mm þar sem ritað er einfalt m:
• fram, fram undan, fram hjá, fram yfir, Knattspyrnufélagið Fram, Framari
• um, innan um, utan um
Athugið einnig ýmiss konar samsetningar með fram og um:
• framámaður, frambjóðandi, framfarir, framkalla, framætt, framíkall, framígrip, framúrkeyrsla
• umboð, umhverfis, umsókn, ummæli
Munurinn á fram í og frammi í er oft ógreinilegur í framburði en helst í ritun; dæmi:
• grípa fram í (fyrir einhverjum)
• sitja frammi í (bílnum)
12. n og nn
12.1 Aðalregla – hvernig regla er valin
Í mörgum orðum er ýmist ritað n eða nn eftir því í hvaða falli, kyni eða tölu þau eru. Þessi munur heyrist ekki alltaf í framburði. Í einkvæðum orðum eins og steinn og minn er ritað n í sumum fallmyndum en nn í öðrum, en þar heyrist munurinn á n og nn í framburði. Þessi orð má nota til leiðsagnar um fjölda annarra orða þar sem þessi munur heyrist ekki. Til hægðarauka verður hér stundum talað um minn-regluna og steins-regluna:
fornöfn > sjá § 12.2 (minn-reglan)
greinir > sjá § 12.2 (minn-reglan)
lýsingarorð sem enda á -inn > sjá § 12.3 (minn-reglan)
lýsingarhættir sem enda á -inn > sjá § 12.3 (minn-reglan)
karlkynsnafnorð sem enda á -ann, -inn, -unn > sjá § 12.4 (steins-reglan)
Í mörgum orðum sem enda á -an, -un eða -unn eru alltaf rituð jafnmörg n en ekki heyrist í framburði hvort þar skal rita n eða nn. > Sjá § 12.6.
12.2 Greinirinn hefur jafnmörg n og minn/mín (minn-reglan)
Lausi greinirinn með nn/n er hinn (í karlkyni) og hin (í kvenkyni):
hinn góði maður
hin góða kona
Viðskeyttur greinir bætist aftan við nafnorð:
hestur – (hann) hesturinn
kría – (hún) krían
Greinir (bæði laus og viðskeyttur) er ritaður með jafnmörgum n-um og eru í orðunum minn/mín. Dæmi:
|
|
KARLKYN |
|
KVENKYN |
|
HVORUGKYN |
|
ET. |
NF. (hér er) |
hesturinn |
minn |
krían |
mín |
húsið |
mitt |
|
ÞF. (um) |
hestinn |
minn |
kríuna |
mína |
húsið |
mitt |
|
ÞGF. (frá) |
hestinum |
mínum |
kríunni |
minni |
húsinu |
mínu |
|
EF. (til) |
hestsins |
míns |
kríunnar |
minnar |
hússins |
míns |
FT. |
NF. (hér eru) |
hestarnir |
mínir |
kríurnar |
mínar |
húsin |
mín |
|
ÞF. (um) |
hestana |
mína |
kríurnar |
mínar |
húsin |
mín |
|
ÞGF. (frá) |
hestunum |
mínum |
kríunum |
mínum |
húsunum |
mínum |
|
EF. (til) |
hestanna |
minna |
kríanna |
minna |
húsanna |
minna |
Nokkur dæmi:
Maðurinn minn sá kríuna mína.
Stúlkan mín tók bátinn minn.
Hundinum mínum var illa við músina mína.
Bíll konunnar minnar er nýrri en bíll kennarans míns.
Athugið sérstaklega karlkynsorð og kvenkynsorð sem enda á löngu sérhljóði í þf. et. án greinis: (um) skó, sjó, snjó; (um) brú, kló, tá. Viðskeytti greinirinn í þessum orðum er ritaður með jafnmörgum n-um og eru í orðunum minn/mín.
|
|
KARLKYN |
|
KVENKYN |
|
ET. |
NF. (hér er) |
skórinn |
minn |
táin |
mín |
|
ÞF. (um) |
skóinn |
minn |
tána |
mína |
|
ÞGF. (frá) |
skónum |
mínum |
tánni |
minni |
|
EF. (til) |
skósins |
míns |
táarinnar |
minnar |
FT. |
NF. (hér eru) |
skórnir |
mínir |
tærnar |
mínar |
|
ÞF. (um) |
skóna |
mína |
tærnar |
mínar |
|
ÞGF. (frá) |
skónum |
mínum |
tánum |
mínum |
|
EF. (til) |
skónna |
minna |
tánna |
minna |
Nokkur dæmi:
Hún hljóp yfir brúna (mína).
Þau léku sér í snjónum (mínum).
Hann flýtti sér í skóna (mína).
Hann meiddi sig í tánum (mínum).
12.3 Lýsingarorð og lýsingarhættir sem enda á -inn hafa jafnmörg n og minn/mín
12.3.1 Lýsingarorð (til dæmis fyndinn) og lýsingarhættir af sögnum (til dæmis kominn af sögninni koma) hafa jafnmörg n og minn/mín:
|
|
KARLKYN |
|
KVENKYN |
|
HVORUGKYN |
|
ET. |
NF. (hér er) |
fyndinn |
minn |
fyndin |
mín |
fyndið |
mitt |
|
ÞF. (um) |
fyndinn |
minn |
fyndna |
mína |
fyndið |
mitt |
|
ÞGF. (frá) |
fyndnum |
mínum |
fyndinni |
minni |
fyndnu |
mínu |
|
EF. (til) |
fyndins |
míns |
fyndinnar |
minnar |
fyndins |
míns |
FT. |
NF. (hér eru) |
fyndnir |
mínir |
fyndnar |
mínar |
fyndin |
mín |
|
ÞF. (um) |
fyndna |
mína |
fyndnar |
mínar |
fyndin |
mín |
|
ÞGF. (frá) |
fyndnum |
mínum |
fyndnum |
mínum |
fyndnum |
mínum |
|
EF. (til) |
fyndinna |
minna |
fyndinna |
minna |
fyndinna |
minna |
Nokkur dæmi:
Pósturinn er kominn (minn).
Maðurinn er hnugginn (minn).
Ég hitti fyndinn (minn) mann.
Það er ekki hlýðinna (minna) hunda siður að gjamma að fólki.
Tónleikar lengra kominna (minna) nemenda verða á sunnudaginn.
Skútan er farin (mín).
Ströndin er sendin (mín).
Konan er fyndin (mín).
Ég hitti langt að komna (mína) stúlku.
Bókasafnið kvartaði yfir illa farinni (minni) bókinni.
Allir vildu hlýða á ræðu svo fyndins (míns) manns.
Mikil umræða skapaðist vegna nýútkominnar (minnar) bókar.
12.3.2 Undantekning: Fornafnið enginn.
|
|
KARLKYN |
KVENKYN |
HVORUGKYN |
|||
ET. |
NF. (hér er) |
enginn |
minn |
engin |
mín |
|
|
|
ÞF. (um) |
engan |
sbr. góðan |
|
|
|
|
FT. |
NF. (hér eru) |
|
|
|
|
engin |
mín |
|
ÞF. (um) |
|
|
|
|
engin |
mín |
Athugið að fornafnið enginn hefur jafnmörg n og minn í nf. et. í karlkyni (enginn) og kvenkyni (engin) og nf./þf. ft. í hvorugkyni (engin). Aftur á móti er eitt n í þf.et. í karlkyni (engan) eins og í flestum sterkum lýsingarorðum (góðan; sjá § 12.6.1).
12.4 Karlkynsnafnorð sem enda á -ann, -inn, -unn hafa jafnmörg n og eru í beygingu orðsins steinn (steins-reglan)
12.4.1 Í nafnorðum sem enda á -ann (til dæmis aftann), -inn (til dæmis himinn) og -unn (til dæmis morgunn) er aðeins ritað nn í nefnifalli eintölu: aftann, himinn, morgunn. Í öllum öðrum föllum er n: (um) aftan, (á) himni, (til) morguns. Munurinn heyrist ekki í framburði en n-in eru jafnmörg og í beygingu orðsins steinn:
ET. |
NF. (hér er) |
aftann |
himinn |
morgunn |
steinn |
|
ÞF. (um) |
aftan |
himin |
morgun |
stein |
|
ÞGF. (frá) |
aftni |
himni |
morgni |
steini |
|
EF. (til) |
aftans |
himins |
morguns |
steins |
Nokkur dæmi:
Þetta er fallegur aftann (steinn).
Í húsinum er hlaðinn arinn (steinn).
Þvílíkur himinn (steinn)!
Hún þykist hafa himin (stein) höndum tekið.
Hann er búinn að koma miklu í verk þó að enn sé aðeins morgunn (steinn).
Á morgun (stein) segir sá lati.
Þetta gerðist um morgun (stein).
Stúlkan sá jötun (stein) og varð hrædd.
12.4.2 Karlmannsnöfn sem enda á -inn eða -unn beygjast eins og steinn:
ET. |
NF. (hér er) |
Héðinn |
Kristinn |
Auðunn |
steinn |
|
ÞF. (um) |
Héðin |
Kristin |
Auðun |
stein |
|
ÞGF. (frá) |
Héðni |
Kristni |
Auðuni |
steini |
|
EF. (til) |
Héðins |
Kristins |
Auðuns eða Auðunar |
steins |
Athugið að bæði er til Auðunn og Auðun. Auðun hefur n í öllum beygingarmyndum.
Athugið. Karlmannsnafnið Kristinn fylgir steins-reglunni (Kristinn, um Kristin) en lýsingarorðið kristinn fylgir minn-reglunni (kristinn maður, um kristinn mann).
Þegar greinir bætist við orð sem enda á -ann, -inn, -unn gildir steins-reglan (sjá § 12.4) um þau en minn-reglan (sjá § 12.3) um greininn sem bætist við:
ET. |
NF. (hér er) |
aftanninn |
himinninn |
morgunninn |
steinn |
minn |
|
ÞF. (um) |
aftaninn |
himininn |
morguninn |
stein |
minn |
|
ÞGF. (frá) |
aftninum |
himninum |
morgninum |
steini |
mínum |
|
EF. (til) |
aftansins |
himinsins |
morgunsins |
steins |
míns |
FT. |
NF. (hér eru) |
aftnarnir |
himnarnir |
morgnarnir |
steinar |
mínir |
|
ÞF. (um) |
aftnana |
himnana |
morgnana |
steina |
mína |
|
ÞGF. (frá) |
öftnunum |
himnunum |
morgnunum |
steinum |
mínum |
|
EF. (til) |
aftnanna |
himnanna |
morgnanna |
steina |
minna |
Nokkur dæmi:
Aftanninn er fagur.
Gæsin flýgur um aftaninn.
Það er engu líkara en himinninn logi.
Hún horfði heilluð upp í himininn.
Morgunninn flýgur frá mér.
Hún fór út um morguninn.
12.6 Í sumum orðum er alltaf sami fjöldi n – ýmist alltaf n eða alltaf nn
12.6.1 Alltaf n
Eftirfarandi flokkar orða hafa alltaf eitt n:
– kvenkynsnafnorð sem enda á -an eða -un: skemmtan, skipan; köllun, seinkun, athugun, bölvun, blessun o.fl.
– hvorugkynsnafnorð sem enda á -an eða -in: gaman, fargan, líkan; feðgin, megin, mæðgin
– nöfn sem enda á -an: Kjartan, Natan, Kvaran, Kiljan, Kjaran, Satan
ET. |
NF. (hér er) |
seinkun |
líkan |
Kjartan |
|
ÞF. (um) |
seinkun |
líkan |
Kjartan |
|
ÞGF. (frá) |
seinkun |
líkani |
Kjartani |
|
EF. (til) |
seinkunar |
líkans |
Kjartans |
FT. |
NF. (hér eru) |
seinkanir |
líkön |
|
|
ÞF. (um) |
seinkanir |
líkön |
|
|
ÞGF. (frá) |
seinkunum |
líkönum |
|
|
EF. (til) |
seinkana |
líkana |
|
– lýsingarorð í þf. et. í karlkyni: (um) góðan, vondan, haltan, beinan, greindan, heimskan
– fornöfn í þf. et. í karlkyni: (um) þennan, annan, engan
ET. |
NF. (hér er) |
góður |
annar |
|
ÞF. (um) |
góðan |
annan |
|
ÞGF. (frá) |
góðum |
öðrum |
|
EF. (til) |
góðs |
annars |
– atviksorð: héðan, hvaðan, innan, utan, sunnan, norðan
12.6.2 Alltaf nn
Eftirfarandi flokkar orða hafa alltaf nn:
– kvenkynsnafnorðin einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn
– kvenmannsnöfn sem enda á -unn: Þórunn, Sæunn, Ingunn
ET. |
NF. (hér er) |
einkunn |
Þórunn |
|
ÞF. (um) |
einkunn |
Þórunni |
|
ÞGF. (frá) |
einkunn |
Þórunni |
|
EF. (til) |
einkunnar |
Þórunnar |
FT. |
NF. (hér eru) |
einkunnir |
|
|
ÞF. (um) |
einkunnir |
|
|
ÞGF. (frá) |
einkunnum |
|
|
EF. (til) |
einkunna |
|
Nokkur dæmi:
Hann leit á einkunnir Þórunnar.
Hún virti Sæunni þetta til vorkunnar.
Hún sýndi Ingunni og Þórunni miskunn.
Undantekning er nafnið Gefjun sem endar á n í allri beygingunni.
12.7 en og enn
Smáorðin en og enn falla oft saman í framburði en þeim er þó haldið aðgreindum í stafsetningu.
Smáorðið en tengir saman setningar, er notað með samanburðarorðum (stærri en) og til áherslu; til dæmis:
Hestar hneggja en kýr baula.
Hekla er hærri en Esjan.
en fallegt!, en sú ósvífni!
Smáorðið enn er notað í merkingunni enn þá og með samanburðarorðum (enn stærri); til dæmis:
ekki kominn enn
enn betur, enn stærri, enn fremur
Hafa má fyrir þumalfingursreglu að ritað sé enn ef hægt er að setja enn þá í þess stað; annars skuli rita en.
13. ps, pt, ppt eða fs, ft
Í framburði verða p og pp oft að f á undan s eða t. Meginreglan er sú að ekki er ritað p eða pp á undan s eða t nema p eða pp sé að finna í öðrum myndum orðsins eða í skyldum orðum.
13.2 p, pp eða f á undan s
13.2.1 p og pp á undan s
Á undan eignarfallsendingunni -s geta p og pp orðið að f í framburði. Eigi að síður er ritað p eða pp þar eins og í öðrum myndum orðsins. Dæmi:
djúps, djúpsins (sbr. djúp)
hóps, hópsins (sbr. hópur)
óps, ópsins (sbr. óp)
skips, skipsins (sbr. skip)
tæps (sbr. tæpur)
þreps, þrepsins (sbr. þrep)
happs, happsins (sbr. happ)
kapps, kappsins (sbr. kapp)
klapps, klappsins (sbr. klapp)
kropps, kroppsins (sbr. kroppur)
slopps, sloppsins (sbr. sloppur)
topps, toppsins (sbr. toppur)
Ef vafi leikur á hvort rita á p eða f á undan s má oft fá stuðning af skyldum orðum:
• glópska (sbr. glópur)
13.2.2 f á undan s
Oft er ritað f á undan s (eins og það er borið fram) og oft fær ritháttur með f jafnframt stuðning af skyldum orðum með f. Dæmi:
• efstur (sbr. efri), hrifsa (sbr. hrífa), ofsi (sbr. of), vafstur (sbr. vefja)
Oft er þó ekki augljós skyldleiki við önnur orð með f eða þá að um er að ræða aðkomuorð þar sem stafsetning hefur verið löguð að íslenskum framburði. Í þeim tilvikum er gott að leita til orðabóka. Dæmi:
• gifs, glefs, glefsa, krafs (sbr. krafla), rifs, snafs, tafs, ufs, ufsi
Hér skal líka minnt á þá meginreglu að ekki er ritað p eða pp á undan s nema p eða pp sé að finna í öðrum myndum orðsins eða í skyldum orðum.
13.3 p, pp eða f á undan t
13.3.1 p og pp á undan t
Oft verða p og pp að f á undan t í framburði í þátíð og lýsingarhætti þátíðar veikra sagna. Jafnan má þó finna p eða pp í nafnhætti og nútíð þessara sagna og fá þannig leiðsögn um rithátt.
Dæmi um veikar sagnir með p á undan t:
dreypti, dreypt (sbr. dreypa)
gapti (sbr. gapa)
greypti, greypt (sbr. greypa)
hleypti, hleypt (sbr. hleypa)
lapti (sbr. lepja)
tæpti, tæpt (sbr. tæpa)
æpti, æpt (sbr. æpa)
Athugið að p getur horfið alveg í framburði ef það er á milli t og annars samhljóðs. Það hverfur þó ekki úr ritmyndinni:
herpti, herpt (sbr. herpa)
skerpti, skerpt (sbr. skerpa)
verpti, verpt (sbr. verpa)
Dæmi um veikar sagnir með pp á undan t:
hneppti, hneppt (sbr. hneppa)
kippti, kippt (sbr. kippa)
klippti, klippt (sbr. klippa)
kreppti, kreppt (sbr. kreppa)
sleppti, sleppt (sbr. sleppa)
steypti, steypt (sbr. steypa)
Oft verða p og pp að f í framburði á undan t í hvorugkyni lýsingarorða. Þar má þó reiða sig á p eða pp í öðrum myndum lýsingarorðsins. Dæmi:
djúpt (sbr. djúpur) _ _ knappt (sbr. knappur)
gljúpt (sbr. gljúpur) _ _ krappt (sbr. krappur)
tæpt (sbr. tæpur) _ _ slappt (sbr. slappur)
Stundum þarf að reiða sig alfarið á skyld orð:
dýpt (sbr. djúpur, dýpi)
kúptur (sbr. kúpa)
skipta, skipting (sbr. skipa, skipun)
svipta, svipting (sbr. svipa)
yppta (sbr. yppa, upp)
13.3.2 f á undan t
Oft er líka ritað f á undan t (eins og það er borið fram) og oft fær ritháttur með f jafnframt stuðning af skyldum orðum með f. Dæmi:
• gifta, gifting (sbr. gefa), kleift (sbr. kleifur, klífa; kleift fjall), kleyft (sbr. kleyfur, kljúfa; kleyft timbur), líft (sbr. líf), lyfta, lyfting (sbr. loft), rifta (sbr. rífa), vansvefta (sbr. sofa), skaft (sbr. skafa), skrift (sbr. skrifa)
Oft er þó ekki augljós skyldleiki við önnur orð með f og þá er gott að leita til orðabóka. Minna má á meginregluna að ekki er ritað p eða pp á undan t nema p eða pp sé að finna í öðrum myndum orðsins eða í skyldum orðum.
14. r og rr
Í mörgum orðum er ýmist ritað r eða rr eftir því í hvaða falli, kyni eða tölu þau eru. Þessi munur heyrist ekki alltaf í framburði. Sums staðar verður r líka ógreinilegt í framburði eða hverfur jafnvel alveg en er samt haldið í stafsetningu.
14.2 Á eftir áherslusérhljóði heyrist munur r og rr yfirleitt vel
14.2.1 Munurinn á r og rr heyrist yfirleitt vel í framburði næst á eftir áherslusérhljóði, eins og í þessum orðum:
stór, (um) stóran, (frá) stórri, (til) stórrar, (til) stórra
blár, (frá) blárri, (til) blárrar, (til) blárra
hver, (frá) hverjum, (frá) hverri, (til) hverrar, (til) hverra
barr, (frá) barri, (til) barrs
kjarr, (frá) kjarri, (til) kjarrs
Nokkur dæmi:
Hún las í stórri, blárri bók og naut hverrar mínútu.
Þar stóð stór, blár bíll.
Hverra manna ert þú?
14.2.2 Athugið þó miðstigsmyndina fleiri sem ætíð er rituð með r þótt hún sé stundum borin fram með rr. Dæmi:
Kostirnir eru fleiri og meiri en ókostirnir.
Hér er fleira fólk en í fyrra.
14.2.3 Nafnorðið styr er ritað með r (en ekki með rr). Dæmi:
Um það stendur styrinn.
14.2.4 Athugið sérstaklega lýsingarorðin kyrr og þurr og miðstigsmyndirnar fyrr og verr sem alltaf eru ritaðar með rr þótt þær séu stundum bornar fram með r. Ritað er rr í öllum beygingarmyndum kyrr og þurr, eins og sýnt er í töflunni hér á eftir.
|
|
KARLKYN |
KVENKYN |
HVORUGKYN |
ET. |
NF. (hér er) |
kyrr |
kyrr |
kyrrt |
|
ÞF. (um) |
kyrran |
kyrra |
kyrrt |
|
ÞGF. (frá) |
kyrrum |
kyrri |
kyrru |
|
EF. (til) |
kyrrs |
kyrrar |
kyrrs |
FT. |
NF. (hér eru) |
kyrrir |
kyrrar |
kyrr |
|
ÞF. (um) |
kyrra |
kyrrar |
kyrr |
|
ÞGF. (frá) |
kyrrum |
kyrrum |
kyrrum |
|
EF. (til) |
kyrra |
kyrra |
kyrra |
14.3 Á eftir áhersluléttum sérhljóðum heyrist munur á r og rr illa
Munurinn á r og rr heyrist yfirleitt ekki vel í framburði á eftir áhersluléttu sérhljóði (sérhljóði sem stendur ekki í áhersluatkvæði), eins og í þessum orðum:
• annar, önnur, (frá) annarri, (til) annarrar, (til) annarra
• einhver, (frá) einhverri, (til) einhverrar, (til) einhverra
• nokkur, (frá) nokkurri, (til) nokkurrar, (til) nokkurra
• fagur, fögur, (frá) fagurri, (til) fagurrar, (til) fagurra
• lipur, (frá) lipurri, (til) lipurrar, (til) lipurra
• snotur, (frá) snoturri, (til) snoturrar, (til) snoturra
Í þessum orðum og öðrum álíka eru rituð jafnmörg r og í lýsingarorðinu stór og því má hafa stór til leiðsagnar. Dæmi:
|
KARLKYN |
KVENKYN |
HVORUGKYN |
||||
ET. |
NF. (hér er) |
nokkur |
stór |
nokkur |
stór |
nokkurt |
stórt |
|
ÞF. (um) |
nokkurn |
stóran |
nokkra |
stóra |
nokkurt |
stórt |
|
ÞGF. (frá) |
nokkrum |
stórum |
nokkurri |
stórri |
nokkru |
stóru |
|
EF. (til) |
nokkurs |
stórs |
nokkurrar |
stórrar |
nokkurs |
stórs |
FT. |
NF. (hér eru) |
nokkrir |
stórir |
nokkrar |
stórar |
nokkur |
stór |
|
ÞF. (um) |
nokkra |
stóra |
nokkrar |
stórar |
nokkur |
stór |
|
ÞGF. (frá) |
nokkrum |
stórum |
nokkrum |
stórum |
nokkrum |
stórum |
|
EF. (til) |
nokkurra |
stórra |
nokkurra |
stórra |
nokkurra |
stórra |
Nokkur dæmi:
Þar mætti hann tröllkerlingu nokkurri (stórri).
Þau sigldu til eyjar nokkurrar (stórrar).
Hún þráði að komast í nokkurra (stórra) daga sumarleyfi.
Undantekning: þessi. Í myndum orðsins þessi er alltaf r (aldrei rr) eins og hér er sýnt:
|
|
KARLKYN |
KVENKYN |
HVORUGKYN |
ET. |
NF. (hér er) |
þessi |
þessi |
þetta |
|
ÞF. (um) |
þennan |
þessa |
þetta |
|
ÞGF. (frá) |
þessum |
þessari |
þessu |
|
EF. (til) |
þessa |
þessarar |
þessa |
FT. |
NF. (hér eru) |
þessir |
þessar |
þessi |
|
ÞF. (um) |
þessa |
þessar |
þessi |
|
ÞGF. (frá) |
þessum |
þessum |
þessum |
|
EF. (til) |
þessara |
þessara |
þessara |
Nokkur dæmi:
Hún lék í þessari mynd; hann lék í einhverri annarri.
Ég hef oft komið til þessarar borgar; förum til einhverrar annarrar.
Enginn þekkti til þessara manna.
14.4 Í sumum orðum fellur r brott í framburði
14.4.1 Sums staðar verður r ógreinilegt eða hverfur alveg í framburði en helst í stafsetningu. Þetta á aðallega við um efsta stig nokkurra lýsingarorða og atviksorða. Þar þarf að leita að stofni í frumstigsmynd eða öðrum skyldum orðum til að sannreyna að rita skuli r:
• stærstur (sbr. stór), nyrstur (sbr. norður), fyrstur (sbr. for-, fyrir), fjærstur (sbr. fjarri), verstur (sbr. verri, versna), ferskt (sbr. ferskur)
Athugið að ritað er hæstur (frumstig hár, háan, háum, hás, miðstig hærri) og skástur (miðstig skárri).
14.4.2 Í sumum orðum er oft borið fram rdl eða dl þar sem ritað er rl, eins og til dæmis í þessum orðum:
• karl, kerling, varla
Í tilvikum eins og þessum þarf oft að leita til orðabóka. Gætið einnig að orðum sem borin eru fram með dl en eru rituð með ll, eins og kalla, hella og valla. Sjá § 16.
14.4.3 Í sumum orðum er oft borið fram rdn eða dn þar sem ritað er rn, eins og til dæmis í þessum orðum:
• Árni, barn, korn, þorn
Í tilvikum eins og þessum þarf oft að leita til orðabóka. Gætið einnig að orðum sem borin eru fram með dn en eru rituð með nn, eins og einn, beinn og seinn. Sjá § 16.
15. s og ss
Í mörgum orðum er ýmist ritað s eða ss eftir því í hvaða falli, kyni eða tölu þau eru. Þessi munur heyrist ekki alltaf í framburði. Sums staðar verður s líka ógreinilegt í framburði eða hverfur jafnvel alveg en er samt haldið í stafsetningu.
15.2 Á eftir áherslusérhljóði heyrist munur s og ss yfirleitt vel
Munurinn á s og ss heyrist yfirleitt vel í framburði næst á eftir áherslusérhljóði, eins og í þessum nafnorðum og lýsingarorðum:
ás, (til) áss _ _ hús, (til) húss _ _ laus, (til) lauss
lás, (til) láss _ _ nes, (til) ness _ _ læs, (til) læss
ís, (til) íss _ _ gras, (til) grass _ _ fús, (til) fúss
bás, (til) báss _ _ gos, (til) goss _ _ vís, (til) víss
Í þessum orðum endar stofninn á einföldu s-i og í eignarfalli eintölu (í karlkyni og hvorugkyni) bætist við hann eignarfallsendingin -s: hús, til húss.
15.3 Á eftir áhersluléttum sérhljóðum heyrist munur á s og ss illa
15.3.1 Munurinn á s og ss heyrist yfirleitt ekki vel í framburði á eftir áhersluléttu sérhljóði (sérhljóði sem ekki stendur í áhersluatkvæði) og því þarf að gæta sérstaklega að ritun s og ss þar. Þetta á bæði við um samsett orð á borð við hengi-lás, eld-hús, Hofs-ós og Reykja-nes og ósamsett orð eins og til dæmis ananas og atlas. Í þessum orðum endar stofninn á einföldu s-i en í eignarfalli eintölu (í karlkyni og hvorugkyni) á -ss:
eldhús, (til) eldhúss _ _ ananas, (til) ananass
hengilás, (til) hengiláss _ _ atlas, (til) atlass
Hofsós, (til) Hofsóss _ _ gúllas, (til) gúllass
Reykjanes, (til) Reykjaness _ _ majónes, (til) majóness
_ _ bónus, (til) bónuss
_ _ kaktus, (til) kaktuss
_ _ sirkus, (til) sirkuss
_ _ kandís, (til) kandíss
15.3.2 Í fornafninu ýmis endar stofninn á einföldu s-i og því bætist eignarfallsendingin -s við stofninn:
|
|
KARLKYN |
KVENKYN |
HVORUGKYN |
ET. |
NF. (hér er) |
ýmis |
ýmis |
ýmist |
|
ÞF. (um) |
ýmsan |
ýmsa |
ýmist |
|
ÞGF. (frá) |
ýmsum |
ýmissi |
ýmsu |
|
EF. (til) |
ýmiss |
ýmissar |
ýmiss |
FT. |
NF. (hér eru) |
ýmsir |
ýmsar |
ýmis |
|
ÞF. (um) |
ýmsa |
ýmsar |
ýmis |
|
ÞGF. (frá) |
ýmsum |
ýmsum |
ýmsum |
|
EF. (til) |
ýmissa |
ýmissa |
ýmissa |
Athugið sérstaklega ýmiss konar þar sem ýmis er í eignarfalli eintölu, eins og hvers og þess í hvers konar og þess konar.
15.3.3 Athugið einnig karlkynsnafnorð á borð við hirðir, læknir og hvorugkynsnafnorð eins og frelsi, kvæði og heimili sem öll fá endinguna -s í eignarfalli eintölu:
|
|
KARLKYN |
HVORUGKYN |
ET. |
NF. (hér er) |
læknir |
kvæði |
|
ÞF. (um) |
lækni |
kvæði |
|
ÞGF. (frá) |
lækni |
kvæði |
|
EF. (til) |
læknis |
kvæðis |
Athugið einnig atviksorð (og forsetningar) sem enda á -is eins og til dæmis erlendis, fríhendis, réttsælis, rangsælis, umhverfis.
15.3.4 Atviksorðin innanhúss og utanhúss eru rituð með ss og samsetningar með þeim, til dæmis innanhússfótbolti, innanhússmál, innanhússskýrsla, utanhússmálning (sbr. § 15.5).
15.4 Ef stofn orðs endar á tvöföldu s-i bætist -s ekki við í eignarfalli
Í orðum þar sem stofn endar á -ss, eins og foss og hross, bætist ekki við -s í eignarfalli:
foss, (til) foss _ _ hross, (til) hross _ _ hvass, (til) hvass
Selfoss, (til) Selfoss _ _ hnoss, (til) hnoss _ _ hress, (til) hress
koss, (til) koss _ _ góss, (til) góss
kross, (til) kross _ _ hlass, (til) hlass
_ _ pláss, (til) pláss
_ _ skass, (til) skass
15.5 Um s og ss á samskeytum samsettra orða
15.5.1 Síðari hluti samsetningar hefst á s
Hefjist síðari hluti orðs á s er breytilegt hvort fyrri hlutinn er ritaður með eignarfallsendingunni -s eða ekki og verður þar að taka tillit til rithefðar og leita til orðabóka.
(1) Hefð er að rita án eignarfallsendingarinnar -s:
bú|stýra (en bús|áhald)
hrepp|stjóri (en hrepps|nefnd, hrepps|ómagi)
nám|skrá (en náms|árangur, náms|braut, náms|maður, náms|stuðningur)
skip|stjóri (en skips|rúm, skips|þerna)
Reyni|staður (en Reynis|drangar, Reynis|fjara, Reynis|hólar)
Þetta gildir einnig þar sem stofn fyrri liðar endar á s:
Árnes|sýsla (en Árness|þing)
Snæfellsnes|sýsla (en Snæfellsness|prófastdæmi)
Reykjanes|skagi
Laugarnes|spítali
Langanes|strönd
Pósthús|stræti
Lárus|son
Tómas|son
Jens|son
(2) Hefð er að rita með eignarfallsendingunni -s:
félags|skapur
lands|samtök
Baróns|stígur
Egils|staðir
Vífils|staðir
(3) Valfrjálst er hvort ritað er með eignarfallsendingunni -s eða án hennar, en oftast eru þessi orð þó rituð án eignarfallsendingarinnar:
eldhús|skápur / eldhúss|skápur
eldhús|stóll / eldhúss|stóll
eldhús|störf / eldhúss|störf
(4) Atviksorðin innanhúss og utanhúss eru rituð með ss í samsetningum:
innanhúss|sími
innanhúss|skýrsla
utanhúss|sýning
15.5.2 Síðari hluti samsetningar hefst ekki á s
Hefjist síðari hluti samsetningar ekki á s sker framburður oftast úr um hvort fyrri liður skuli ritaður með eignarfallsendingunni -s eða án hennar. Vafi getur þó skapast ef stofn fyrri liðar endar á s og verður þar að taka tillit til rithefðar.
(1) Hefð er að rita án eignarfallsendingarinnar -s:
Laufás|vegur
Laugarnes|vegur
Reykjanes|braut
Reykjanes|bær
Reykjanes|fólkvangur
(2) Hefð er að rita með eignarfallsendingunni -s:
Árness|þing
Snæfellsness|prófastdæmi
(3) Valfrjálst er hvort ritað er með eignarfallsendingunni -s eða án hennar, en oftast eru þessi orð þó rituð án eignarfallsendingarinnar:
eldhús|borð (eða eldhúss|borð)
eldhús|verk (eða eldhúss|verk)
lambhús|hetta (eða lambhúss|hetta)
fjárhús|tóft (eða fjárhúss|tóft)
(4) Atviksorðin innanhúss og utanhúss eru rituð með ss í samsetningum:
innanhúss|arkitekt
innanhúss|fólk
innanhúss|fótbolti
innanhúss|mál
utanhúss|málning
Athugið sérstaklega Neskaupstaður sem er sett saman úr Nes og kaupstaður.
16. rl og ll; rn og nn; sl og sn
16.1. rl og ll
Samböndin rl og ll eru oft borin fram með d-hljóði sem ekki birtist í stafsetningu (samstöfurnar rdl og dl koma ekki fyrir í stafsetningu í ósamsettum orðum).
Dæmi um orð með rl:
• varla, karl, kerling, jarl, perla, nurla, sturla
Dæmi um orð með ll:
• hella, kalla, kollur, illur, pallur, hellingur, vellingur
Orð með rl og ll geta orðið nánast eins í framburði og þá þarf að gæta að uppruna orðanna þegar ritað er:
karla (af karl) _ _ kalla (so.)
varla _ _ valla (af völlur)
Athugið að jafnframt eru til orð með ll sem borið er fram án d-hljóðs og þau eru einnig rituð með ll:
• sellerí, pilla, troll, Kalli (af Karl), Palli (af Páll)
16.2. rn og nn
Samböndin rn og nn eru oft borin fram með d-hljóði sem ekki birtist í stafsetningu (samstöfurnar rdn og dn koma ekki fyrir í stafsetningu í ósamsettum orðum).
Dæmi um orð með rn:
• Árni, barn, korn, firn, forn, görn, örn
Dæmi um orð með nn:
• beinn, brúnn, fínn, sónn, tónn
Athugið að jafnframt er fjöldi orða þar sem nn er borið fram án d-hljóðs og þau eru einnig rituð með nn:
• annar, finna, kunnur, þennan
Athugið að ritað er rtn ef rt er að finna í skyldum orðum:
• ertni (sbr. erta), sortna (sbr. svartur)
16.3 sl og sn
Samböndin sl og sn eru oft borin fram með d-hljóði sem ekki birtist í stafsetningu (samstöfurnar sdl og sdn koma ekki fyrir í stafsetningu í ósamsettum orðum).
Dæmi um orð með sl:
• slá, sleppa, slíta, slökkva
• basl, busla, drusla, varsla, versla
Dæmi um orð með sn:
• snara, snemma, snjór, snyrta, snæri
• asni, visna, kosningar (sbr. kjósa, kosinn)
Athugið að ritað er stn ef st er að finna í skyldum orðum:
• freistni (sbr. freisting), kostnaður (sbr. kosta), kristni (sbr. kristinn)
17. x, gs, ks
Lítill munur er oft í framburði á þeim hljóðum og hljóðasamböndum sem rituð eru með bókstafnum x og bókstafasamböndunum gs og ks, eins og til dæmis í þessum orðapörum:
laks (af lak) _ _ lax
seks (af sekur) _ _ sex
vígsla (af vígja) _ _ víxla
Oftast má þó finna skylt orð (eins og lak, sekur og vígja í orðapörunum hér að ofan) sem leiðbeint getur um rithátt en stundum þarf að leita til orðabóka.
17.2 gs ef g í öðrum myndum eða skyldum orðum
Rita skal gs ef g er í öðrum orðmyndum eða skylt orð er með g; til dæmis:
(a) í fjölda eignarfallsmynda með eignarfallsendingunni -s:
• bógs (af bógur), dags (af dagur), flugs (af flug), lags (af lag), lagsmaður, lagsi (af lag), lágs (af lágur), mágs (af mágur), rógs (af rógur), slagsmál (sbr. slagur), vogs (af vogur), fangs (af fang), langs (af langur), rangs (af rangur), vængs (af vængur), þangs (af þang)
(b) í sögnum með -st:
• hyggst (af hyggja), lagst (af leggja), leggst (af leggja), sagst (af segja)
(c) í orðum þar sem g er næst á undan s í stofni:
• bægsli (sbr. bógur), flygsa (sbr. flug), hugsa, hugsi (sbr. hugur), lagstur (sbr. lagðist), lægstur (sbr. lágur, lægri), þyngsli (sbr. þungur)
Stundum eru tengsl við orð með g þó alls ekki augljós og þar verður að leita til orðabóka; til dæmis:
• rigs, rigsa (sbr. reigja), slugsa (uppruni óviss)
17.3 ks ef k í öðrum myndum eða skyldum orðum
Rita skal ks ef k er í öðrum orðmyndum eða skylt orð er með k; til dæmis:
(a) í fjölda eignarfallsmynda með eignarfallsendingunni -s:
• fok (af fok), laks (af lak), loks (af lok), malbiks (af malbik), roks (af rok), ryks (af ryk), seks (af sekur), taks (af tak), þaks (af þak)
(b) í sögnum með -st:
• rekst (af reka), tekst (af taka), stökkst (af stökkva)
(c) í orðum þar sem k er næst á undan s í stofni sem sést oft í skyldum orðum:
• akstur (sbr. aka), bakstur (sbr. baka), innlyksa (sbr. lok), loksins (sbr. lok), mokstur (sbr. moka), rakstur (sbr. raka), rekstur (sbr. reka)
(d) í lýsingarorðum með sk:
• írakskur (af Írak), kasakskur (af Kasakstan), srílankskur (af Srí Lanka), úsbekskur (af Úsbekistan)
Ekki er þó ritað ksk á eftir í:
• reykvískur (af Reykjavík), húsvískur (af Húsavík), keflvískur (af Keflavík), afrískur (af Afríka), bandarískur (af Bandaríkin), grískur (af Grikkland), mósambískur (af Mósambík), tadsískur (af Tadsíkistan), krítískur (af krítík), pólitískur (af pólitík)
Stundum eru tengsl við orð með k þó alls ekki augljós og þar verður að leita til orðabóka; til dæmis:
• baksa (sbr. bak), hneyksli, hneykslast (sbr. hnauk), ræksni (uppruni óviss)
17.4 x ef ekki g eða k í stofni eða skyldum orðum
Ritað er x ef ekki er g eða k í stofni eða í skyldum orðum:
• ax, kornax, buxur, exi, fax, fox, foxillur, jaxl, kex, lax, pex, rex, sax, saxa, sex, strax, taxi, taxti, texti, uxi, yxna, vax, vaxa, vöxtur, víxl, æxlast, æxli, æxlun, öxi, öxl
Athugið einnig mannanöfnin Alex, Alexía, Alexander, Alexandra, Alexandría, Alexíus, Axel og Felix.
18. Einn eða fleiri samhljóðar
18.1 Upprunasjónarmiðið
Íslensk stafsetning byggist að miklu leyti á upprunasjónarmiðum. Í því felst að yfirleitt er valinn ritháttur sem endurspeglar uppruna og skyldleika orða fremur en að leitað sé einföldustu samsvörunar milli bókstafa og nútímaframburðar.
Þannig er að jafnaði tekið mið af stofni orðs (til dæmis grimmd með tveimur m-um af því að orðið er leitt af lýsingarorðinu grimmur) (sjá § 18.2–§ 18.3), ritað er y, ý og ey í samræmi við uppruna og fornan framburð (til dæmis þynnri með y með hliðsjón af orðinu þunnur) (sjá § 6), gerður greinarmunur á n og nn í greini og endingum orða (til dæmis fyndinn í kk. en fyndin í kvk.) (sjá § 12) og ritað fl, fn; ll; nn; rl, rn þótt hljóðavíxl eða önnur breyting hafi orðið í framburði (til dæmis eflt, nefnd, allur, beinn, árla, spyrnti) (sjá § 7, § 12 og § 20) o.s.frv.
18.2 Stofn orða (stofnreglan)
Ritmynd stofns veitir yfirleitt leiðsögn um ritun í öllum beygingarmyndum þess þótt hann heyrist ekki alltaf í framburði. Þetta kallast stofnreglan. Stofn er sá hluti orðs sem er sameiginlegur öllum beygingarmyndum þess. Stundum þarf að leita til skyldra orða ef stofn veitir ekki nægilega skýr svör um ritun orðs.
• annarra (sbr. annar), bágur (sbr. bágs), bogi (sbr. boga), bólgna (sbr. bólginn), efndi (sbr. efna), franskt (sbr. franskur), gegndi (sbr. gegna), harðna (sbr. harður), hegndi (sbr. hegna), horfnir (sbr. horfinn), hæstur (sbr. hár), jafnt (sbr. jafn), legi (sbr. lögur), leigja (sbr. leigði), lægstur (sbr. lágur), lögin (sbr. lög), margt (sbr. margur), nokkurri (sbr. nokkur), ragt (sbr. ragur), rakt (sbr. rakur), stærstur (sbr. stór), tefldi (sbr. tefla), tiginn (sbr. tign), vatns (sbr. vatn), vígsla (sbr. vígður)
18.3 Einfaldur eða tvöfaldur samhljóði
Til þess að vita hvort rita skuli einfaldan eða tvöfaldan samhljóða er nauðsynlegt að finna stofn orðsins.
• illska (sbr. illur), hryggði (sbr. hryggja), hollt (sbr. hollur), holt (sbr. holur), grennri (sbr. grannur), grynnka (sbr. grunnur), gapti (sbr. gapa), drottning (sbr. drottinn), drukkna (sbr. drukkinn, drekkja), fjölkynngi (sbr. kunna), kettlingur (sbr. köttur), klukkna (sbr. klukka), kynnti (sbr. kynna), kynti (sbr. kynda), minnka (sbr. minni), slokkna (sbr. slökkva), þurrka (sbr. þerra)
Athuga þarf sérstaklega þrjá eins samhljóða á mörkum samsettra orða.
• alllítill, krosssaumur, sannnefndur, stássstofa, þátttaka
Athuga þarf rithátt eftirfarandi orða:
• fyrr, kyrr, þurr, verr (verr og miður)
• fram, um, en (þó enn í merkingunni enn þá)
19. Brottfall í framburði
Við orðmyndun og beygingu orða geta þrír eða fleiri samhljóðar lent samhliða inni í orði eða í enda orðs. Við slíkar aðstæður eru brottföll algeng í framburði. Jafnan er ritað eftir uppruna og því gildir að hafa í huga stofn þess orðs sem rita skal en ekki aðeins viðkomandi orðmynd. Stundum þarf einnig að leita skyldra orða. Nokkrar undantekningar eru frá þessari reglu um ritun eftir uppruna sem læra þarf sérstaklega (sjá § 19.5).
Stök samhljóð geta einnig verið ógreinileg, sjá einkum um f eða v í § 7, g í § 8 og j í § 10 og algengt er að framburður endurspegli ekki rithátt tveggja samhljóða. Mörg slík dæmi eru til umfjöllunar í köflum § 7–§ 13.
19.2 Í ýmsum orðum eru þrjú eða fleiri samhljóð í stofni án þess að það heyrist skýrt í framburði
Hér er bæði um samsett og ósamsett orð að ræða. Leita þarf skyldra orða.
• bernska (sbr. barn), eyðsla (sbr. eyða), fyrndur (sbr. forn), girnd (sbr. girnast), holdgast (sbr. hold), hvelfdur (sbr. hvelfing, hvolfa), hvilft (sbr. hvelfa, hvolfa), skelfdur (sbr. skjálfa), smyrsl (sbr. smyrja), tylft (sbr. tólf), varsla (sbr. vörður), vernd (sbr. verja), (yfir)breiðsla (sbr. breiða), þyngsli (sbr. þungur), ærsl (sbr. ærast)
• borðtennis, harðtrúlofaður, jarðtengdur, verðleggja, verðlag
Oft er erfitt að finna skyld orð. Þá þarf að leita til orðabóka: álft, högld/hagldir, yrðlingur.
19.3 Samhljóð falla gjarna brott eða verða ógreinileg þegar beygingarending bætir við samhljóða þar sem tveir eða fleiri eru í stofni.
Finna þarf stofn eða skylt orð.
• barns (af barn), fangsins (af fang), fisks (af fiskur), fjærstur (sbr. fjarri, fjær), fornt (af forn), fólks (af fólk), fyrstur (sbr. for-, fyrir), gagnsins (af gagn), gests (af gestur), hálft (af hálfur), hests (af hestur), herpts (af herptur), hundsins (af hundur), hverflar (af hverfill), karls (af karl), kvöldsins (af kvöld), lambs (af lamb), langs (af langur), lempni (sbr. lempinn, lempa), lofts (af loft), lungna (af lunga), lúmskt (af lúmskur), margt (af margur), mjálms (af mjálm), nyrðri, nyrst (sbr. norður), rangs (af rangur), sjálft (af sjálfur), stirðs (af stirður), styrks (af styrkur), styrkts (af styrktur), stærstur (af stór, stærri), svarts (af svartur), svindls (af svindl), sýknra (af sýkn), vatns (af vatn), verðs (af verð), vængsins (af vængur), þangs (af þang)
19.4 Samhljóð falla gjarna brott, verða ógreinileg eða breytast þegar þrír samhljóðar lenda saman í þátíðarmyndum sagna.
Finna þarf stofn:
• bergði (af bergja), birgði (af birgja (sig upp)), byrgði (af byrgja (inni)), dembdi (af demba), efldi, eflt (af efla), ergði (af ergja), fergði (af fergja), fylgdi (af fylgja), fylkti (af fylkja), fyrndi, fyrnd, fyrnt (af fyrna), herpti, herpt (af herpa), hvolfdi (af hvolfa), kembdi, kembt (af kemba), lembdi (af lemba), nefndi, nefnt (af nefna), orðnar (af orðinn, lh. þt. af verða), rigndi (af rigna), skyggndist (af skyggna), spyrnti (af spyrna), styrkti (af styrkja), telgdi (af telgja)
Ath. að ef þátíðarendingin bætir t við ð eða d í stofni er ritað í samræmi við framburð, sjá § 19.5.1.
19.5 Undantekningar frá upprunareglunni varða ritun hljóða á undan t, st, sk og sl
Í nokkrum tilvikum endurspeglar ritun framburð en ekki uppruna.
19.5.1 Ekki er ritað ð og d á undan t, st, sk og sl þrátt fyrir uppruna ef hljóðin heyrast ekki í framburði:
• girti (girð + ti, sbr. girða), hart (harð + t, sbr. harður), synti (synd + ti, sbr. synda), kalt (kald + t, sbr. kaldur), bregst (bregð + st, sbr. bregðast), íslensk (íslend + sk), verslun (verð + sl + un), vont (vond + t, sbr. vondur)
Ef ð heyrist í framburði er það hins vegar ritað:
• áníðsla, hefur dáðst, eyðsla, háðsk, náðst, (hefur) reiðst, syðstur, yfirbreiðsla
Þegar ð + t verður tt í framburði ósamsettra orða er það ritað svo:
• glatt (glað + t, sbr. glaður), breitt (breið + t, sbr. breiður), hljótt (hljóð + t, sbr. hljóður), reitt (reið + t, sbr. reiður), vítt (víð + t, sbr. víður)
19.5.2 Ekki er ritað t á undan st, sk og sl þrátt fyrir uppruna ef t heyrist ekki:
• gast (gat + st), viska (vit + ska), gæsla (gæt + sla)
19.5.3 Ekki er ritað t, st eða tt á undan st:
• hann hefur fest (fest + st), þau hafa kysst (kysst + st), vandinn hefur leyst (leyst + st), þau hafa hist (hittst + st)
19.5.4 Ekki er ritað ksk ef í fer á undan:
• afrískur (sbr. Afríka), húsvískur (sbr. Húsavík), reykvískur (sbr. Reykjavík)
Athuga þarf sérstaklega r og ð í efsta stigi lýsingarorða og atviksorða. Finna þarf stofn eða skylt orð:
• Án ð og r: hæstur (sbr. há), smæstur (sbr. smá), mjóstur (sbr. mjó), skástur (skylt skána)
• Með ð: syðstur (suður)
• Með r: stærstur (sbr. stór), nyrstur (sbr. norður), fyrstur (sbr. for-, fyrir), fjærstur (fjær), verstur (skylt versna)
20. Stafavíxl
Í framburði geta gl/lg og gn/ng víxlast eða g-hljóðið horfið þannig að erfitt er að átta sig á rithættinum. Það sama gildir um fl/lf og fn þar sem einnig þarf að huga að mismunandi framburði fl og fn, sjá § 8.5 og § 8.6.
20.2 Þátíð veikra sagna
Víxlin verða einkum í þátíð veikra sagna. Ritháttur er þá eins og í nafnhættinum:
|
1. KENNIMYND |
2. KENNIMYND |
3. KENNIMYND |
ÞÁ EINNIG |
gl |
negla |
negldi |
neglt |
negldir, neglduð o.s.frv. |
gl |
sigla |
sigldi |
siglt |
sigldir, siglduð o.s.frv. |
ggl |
yggla |
yggldi |
ygglt |
yggldir, ygglduð o.s.frv. |
lg |
fylgja |
fylgdi |
fylgt |
fylgdir, fylgduð o.s.frv. |
lg |
velgja |
velgdi |
velgt |
velgdir, velgduð o.s.frv. |
lg |
telgja |
telgdi |
telgt |
telgdir, telgduð o.s.frv. |
gn |
egna |
egndi |
egnt |
egndir, egnduð o.s.frv. |
gn |
gegna |
gegndi |
gegnt |
gegndir, gegnduð o.s.frv. |
gn |
hegna |
hegndi |
hegnt |
hegndir, hegnduð o.s.frv. |
gn |
rigna |
rigndi |
rignt |
niðurrigndur |
ng |
hengja |
hengdi |
hengt |
hengdir, hengduð o.s.frv. |
ng |
lengja |
lengdi |
lengt |
lengdir, lengduð o.s.frv. |
ng |
sprengja |
sprengdi |
sprengt |
sprengdir, sprengduð o.s.frv. |
fl |
efla |
efldi |
eflt |
efldir, eflduð o.s.frv. |
fl |
tefla |
tefldi |
teflt |
tefldir, teflduð o.s.frv. |
lf |
hvolfa |
hvolfdi |
hvolft |
hvolfdir, hvolfduð o.s.frv. |
lf |
skelfa |
skelfdi |
skelft |
skelfdir, skelfduð o.s.frv. |
fn |
efna |
efndi |
efnt |
efndir, efnduð o.s.frv. |
fn |
nefna |
nefndi |
nefnt |
nefndir, nefnduð o.s.frv. |
Þessi víxl valda því að þátíð sagnanna hegna og hengja hljómar eins í framburði, en þeim er haldið aðgreindum í rithætti:
hegna – (þið) hegnduð
hengja – (þið) hengduð
Það sama gildir um sagnirnar skefla (fjúka í skafla) og skelfa (hræða).
20.3 Stafavíxl í öðrum orðum
Slík víxl finnast einnig í öðrum orðum en sögnum og þarf þá gjarna að leita skyldra orða eða í orðabók:
• fylgdarmaður (sbr. fylgja), gegndarlaus, gegnd (sbr. gegna), gegnt (sbr. gegn, þ.e. á móti), fiskgengd (sbr. ganga), jafnt (sbr. jafn), lítilsigldur (sbr. sigla), lygnt (veður) (sbr. lygn, logn)
Athugið mismunandi rithátt snurða (hnútur, skylt snara) og snuðra (forvitnast). Ritað er snurða hleypur á þráðinn, en forvitið fólk snuðrar.
Athugið að ritað er vg í orðunum frjóvga, frjóvgun (af frjór) og sljóvga, sljóvgaður (af sljór). Hljóðunum er stundum víxlað í framburði eða v heyrist ekki. Framburðurinn vg er hins vegar oftast ritaður fg, sjá § 7.3.5.
21. Komma
Kommur eru settar á milli setninga sem ekki eru tengdar með samtengingum og utan um innskotssetningar sem geyma viðbótarupplýsingar. Þær eru einnig settar á milli orða og liða í upptalningu og til að afmarka ávörp, upphrópanir og viðauka.
21.1 Komma og setningar
21.1.1 Komma er notuð þegar setningar koma hver á eftir annarri í sömu málsgrein án þess að þær séu tengdar með samtengingu. Setningar eru því annaðhvort aðgreindar með kommum eða tengdar með samtengingum.
Sumir fengu ís, aðrir vildu frekar köku.
Sumir fengu ís en aðrir vildu frekar köku.
Rúna vann fyrstu skákina, gerði tvö jafntefli en tapaði fjórðu skákinni.
Rúna vann fyrstu skákina og gerði tvö jafntefli en tapaði fjórðu skákinni.
Mér leiddist inni, gat ekki fest hugann við neitt, fór út og gekk dálitla stund.
Hafa verður í huga að samtengingar geta lent fremst í málsgrein og ekki á milli þeirra setninga sem þær tengja. Samt sem áður er ekki höfð komma á mótum setninganna.
Þegar veðrið er gott líður mér vel.
Eins og áðan kom fram fellur fundurinn í dag niður.
Innskotssetningar fleyga aðrar setningar (aðal- eða aukasetningar) og þær geta verið afmarkaðar með kommum (sjá § 21.1.2)
Athugið. Ef skýringartengingin að fellur brott er ekki sett komma í hennar stað:
Hann veit að hún kemur. / Hann veit hún kemur.
Athugið. Ef skilyrðistengingin fellur brott er ekki sett komma í hennar stað (þá er sögn í skilyrðissetningu í viðtengingarhætti):
Þeir róa í kvöld ef veðrið skánar. / Þeir róa í kvöld skáni veðrið.
Ef veðrið skánar róa þeir í kvöld. / Skáni veðrið róa þeir í kvöld.
21.1.2 Kommur eru notaðar til að afmarka innskotssetningu tengda með samtengingu ef hún felur í sér viðbótarupplýsingar og hægt er að setja sviga utan um hana eða taka hana út án þess að merking aðalsetningarinnar glatist.
Þetta hús, sem var byggt 1920, er elsta húsið við götuna. (= Þetta hús er elsta húsið við götuna. Það var byggt 1920. – Þetta innskot er með viðbótarupplýsingum.)
Gunnar, sem hafði verið leigubílstjóri í þrjátíu ár, lét ekki sitt eftir liggja. (= Gunnar lét ekki sitt eftir liggja. Hann hafði verið leigubílstjóri í þrjátíu ár. – Þetta innskot er með viðbótarupplýsingum.)
Árið 1939, þegar 21 ár var liðið frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, hófst seinni heimsstyrjöldin. (= Árið 1939 hófst seinni heimsstyrjöldin. Þá var liðið 21 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. – Þetta innskot er með viðbótarupplýsingum.)
Gömlu hjónunum, sem höfðu búið í húsinu í áratugi, féll þungt að þurfa að flytjast á brott. (= Gömlu hjónunum féll þungt að þurfa að flytjast á brott. Þau höfðu búið í húsinu í áratugi. – Þetta innskot er með viðbótarupplýsingum.)
Ekki skal afmarka með kommum innskotssetningu tengda með samtengingu ef hún er ómissandi hluti af merkingu aðalsetningarinnar, afmarkar hana nánar og ekki er hægt að setja sviga utan um hana.
Sá sem fæst við erfitt verkefni verður að leggja hart að sér.
Nemandi sem stundar námið vel mun ná góðum árangri.
Það sem birtist á skjánum er ólæsilegt.
Strákurinn sem braut gluggann hljóp í burtu.
Nokkrir sem ég þekki ætla til Akureyrar í sumar.
Í þeim samdrætti sem nú gengur yfir er fráleitt að auka launakostnað fyrirtækjanna.
Lagt er til að útgerðir þeirra báta sem nú stunda veiðar með krókaleyfi geti fengið aflahlutdeild í einstökum tegundum.
Sérfræðingar á ýmsum sviðum er tengjast opinberum innkaupum kynntu nýjungar á fjölsóttri innkauparáðstefnu.
Alltaf þegar veðrið er gott sit ég úti í garði.
Ýmsir sem hér búa eru óánægðir.
Enginn þeirra sem kusu studdu formanninn í kjörinu.
Hvenær sem er hentar mér.
Sama málsgrein getur haft ólíka merkingu eftir því hvort innskotssetning hefur að geyma viðbótarupplýsingar sem setja má sviga um, eins og í (a), eða er nauðsynleg fyrir merkingu aðalsetningarinnar, eins og í (b):
(a) Þingmenn kjördæmisins,sem fengu boðsmiða, komu á sýninguna. = Þingmenn kjördæmisins komu á sýninguna en þeir fengu (allir) boðsmiða. – Þetta innskot er með viðbótarupplýsingum.
(b) Þingmenn kjördæmisins sem fengu boðsmiða komu á sýninguna. = Þeir þingmenn kjördæmisins sem fengu boðsmiða komu á sýninguna (en ekki allir þingmenn kjördæmisins fengu boðsmiða). – Þessi innskotssetning tilgreinir þá þingmenn sem komu á sýninguna og er nauðsynleg til að merking aðalsetningarinnar komist til skila.
Athugið. Gæta skal þess að bæði er komma á undan og eftir innskotssetningu sem afmörkuð er með kommum.
Kommur afmarka ekki heilar setningar sem koma hver á eftir annarri í sömu málsgrein og eru tengdar með samtengingum (sjá § 21.1.1).
Alexander kemur þegar hann hefur lokið við tölvuleikinn sem hann keypti í gær.
Hér er komin nútímaleg vara sem höfðar sterkt til ungs fólks sem keppir við tímann.
Oftast vakna ég á morgnana þegar vekjaraklukkan hringir og fer strax í sturtu.
21.1.3 Heimilt er að setja kommu milli setninga ef nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir misskilning þótt það sé ekki í samræmi við fyrrgreindar reglur.
Hún mælti svo, að enginn hafði heyrt snjallari ræðu. Páll fór inn, í sömu mund og fór að rigna. Heimilt er að setja kommu til að auðkenna hlé í lestri þótt það sé ekki í samræmi við fyrrgreindar reglur, sérstaklega í löngum málsgreinum. Ég settist að í bæjarfélaginu fyrir 17 árum og hef ætíð unað hag mínum vel þar innan um fjölskrúðugt mannlíf, en síðustu misseri hefur það dálítið breyst. 21.2 Önnur notkun kommu 21.2.1 Komma afmarkar innskot og viðauka til nánari skýringar sem ekki eru fullgildar setningar með umsögn. Um innskotssetningar sjá § 21.1.2. Kórstjórinn okkar, hann Egill, var veikur í gær. Nokkrir starfsmenn, til dæmis Alexandra og Steinþór, ætla til útlanda í sumar. Hann sagði, auðvitað í hugsunarleysi, ýmislegt móðgandi. Þær eru farnar heim, stúlkurnar. Réttu mér bolla, þennan hvíta. Hann hljóp út, sárreiður og æstur. Sixpensari, derhúfa með mjúkum kolli Loksins komumst við heim, ánægð með daginn. Þarna voru margir, meðal annars frændfólk mitt. Ég ætla að koma fljótt aftur, á morgun eða hinn daginn. Börnin voru mjög veik, einkum eldri krakkarnir. 21.2.2 Komma er höfð í upptalningu nema þar sem notaðar eru samtengingar. Sigrún, Jón, Aron og Emilía eru systkin. Á morgun er landafræði, enska, stærðfræði og danska. Í veislunni voru sniglar í forrétt, nautakjöt í aðalrétt og ís í eftirrétt. Á morgun er landafræði og enska og stærðfræði og danska. 21.2.3 Komma er höfð þegar orð eru endurtekin. Þetta er langtum, langtum skemmtilegra. Já, já. 21.2.4 Komma er höfð til að afmarka ávörp og upphrópanir. Sæl, Anna, og til hamingju með afmælið. Fundarstjóri, má ég bera fram athugasemd? Hvað var það, minn kæri, sem þú vildir okkur segja, þú frægi skrýtni Sölvi Helgason? Nei, það kemur ekki til greina. Ó, farðu þér nú ekki að voða. 21.2.5 Komma er sett til að afmarka beina ræðu en ef beinni ræðu lýkur með upphrópunarmerki eða
spurningarmerki er kommunni sleppt. „Þetta skil ég vel,“ sagði Anna. „Nú er tíminn,“ sagði hann, „til að skipta um rafhlöðu.“ „Þetta er ömurlegt!“ hrópaði Anna. „Eruð þið búin að skipta um rafhlöðu?“ spurði hann. 21.2.6 Kommur afmarka ekki starfsheiti, titla og frændsemisorð ef þau eru aðeins tvö orð (aðalorð og einkunn) en hins vegar ef þau eru þrjú eða fleiri. Jóna Árnadóttir formaður mælti fyrir tillögunni. Jói frændi okkar kom í veisluna. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands vígði kirkjuna. Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur. Rósa Jónsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, var í leyfi í fyrra. 21.2.7 Kommur eru valfrjálsar milli tveggja lýsingarorða eða lýsingarhátta ef þau vísa bæði til orðsins sem þau standa með (hægt að setja og í staðinn fyrir kommu). Þarna var gömul góð kona. Þarna var gömul, góð kona. Ef lýsingarorð eða lýsingarháttur myndar heild með orði sem það stendur með þá er ekki höfð komma ef á undan fer annað lýsingarorð eða lýsingarháttur. Þetta er góð gerilsneydd mjólk. Hann keypti íslensk ríkistryggð skuldabréf. 21.2.8 Kommur eru notaðar við ritun tugabrota og til að aðgreina aðal- og undirmyntir í fjárhæðum. Einn deilt með fjórum er 0,25. Pí er u.þ.b. 3,14. Kílóið er á 29,95 kr. Heyrnartólin kostuðu 70,50 evrur. 22. Punktur Punktur er settur á eftir málsgreinum og ígildum þeirra nema þar komi fyrir önnur greinarmerki. Einfalt bil er á eftir punkti í lok málsgreinar. Punktur í lok málsgreinar: Réttu mér bollann. Jón hafði ekki hugmynd um hvort hún hefði komið. Fór í vinnuna. Ekkert sérstakt gerðist. Helgi hringdi eftir kvöldmat. Önnur greinarmerki í lok málsgreinar:
Gengur þú alltaf í vinnuna?
Réttu mér bollann!
Jón hafði ekki hugmynd …
Punktur er settur á eftir raðtölustaf nema við skástrik.
Guðrún er í 2. bekk.
Á 16. blaðsíðu hefst 3. kafli.
Ætli Kristján X. og Hinrik VIII. hafi verið skyldir?
5/6 (fimm sjöttu eða fimmti sjötti)
Þegar málsgrein endar á skammstöfun eða raðtölu á ekki að bæta við öðrum punkti.
Hann greiddi henni 100 kr.
Þetta gerðist einhvern tíma í febrúar, líklega 22.
Elísabet var dóttir Hinriks VIII.
Á undan öðrum greinarmerkjum helst hins vegar punktur sem tilheyrir skammstöfunum og raðtölum.
Hún keypti mat fyrir 500 kr.: mjólk og jógúrt.
Hún fékk 500 kr.; peningurinn fór í mat.
Var Elísabet I. dóttir Hinriks VIII.?
Notaður er punktur til að greina að þúsund í tölum (þó aldrei í ártölum) og mánaðardag, mánuð og ár í dagsetningu.
14.000 manns rituðu nafn sitt á undirskriftalistann.
Íbúar Danmerkur eru fleiri en fimm milljónir (5.707.231 árið 2016).
Sólin er að meðaltali 149.500.000 km frá jörðu.
14.12.2017
Punktur er einnig notaður til að tákna tíma.
Kl. 2.45
Einnig er hægt að nota tvípunkt til að tákna tíma (sjá § 29.5).
Punktar eru að jafnaði notaðir í skammstöfunum og punktur í þeim táknar að orð sé stytt. Meginreglan er sú að nota einn punkt fyrir hvert skammstafað orð. Ekki er bil á eftir orði í skammstöfun nema milli tveggja skammstafana sem hvor um sig er sjálfstæð eining.
ehf. (einkahlutafélag)
nk. (næstkomandi)
t.d. (til dæmis)
o.s.frv. (og svo framvegis)
cand.med.
ma.kr. (milljarðar króna)
próf. dr.
Athugið. Í sumum tegundum skammstafana er ekki notaður punktur:
Ekki er notaður punktur í skammstöfun samsett orðs ef síðari eða síðasti hluti þess er ekki skammstafaður.
Rvík
Khöfn
Ekki er hafður punktur í skammstöfunum sem eru ritaðar með upphafsstöfum.
ÍR (Íþróttafélag Reykjavíkur)
BHM (Bandalag háskólamanna)
Ýmsar alþjóðlegar skammstafanir í metrakerfinu, heiti frumefna og mælieininga eru ritaðar án punkts.
kg (kíló)
Na (natríum)
V (volt)
23. Semikomma
Semikommu má setja milli málsgreina í stað punkts ef þær eru merkingarlega nátengdar en einkum ef síðari málsgreinin táknar afleiðingu hinnar fyrri eða andstæðu hennar. Semikomma táknar meiri skil í málsgrein en komma en minni en punktur.
Það hefur verið mikið ónæði hérna í dag; mér hefur því ekki tekist að ljúka verkefninu.
Jón varð fyrir aðkasti margra; samt lagði hann engum illt til.
Margir réttu honum hjálparhönd; þó kom allt fyrir ekki.
Semikommu má nota í upptalningu til að afmarka þá liði sem helst eiga saman.
Verslunin selur ýmiss konar vörur: pappír, ritföng; sígarettur, vindla, neftóbak; sápur, ilmvötn og aðra hreinlætisvöru.
Hiti sjúklingsins var 39,6; 38,7; 37,9; 36,9.
Athugið. Tvípunktur en ekki semikomma er settur á undan upptalningu með formlegum inngangsorðum (sjá § 29.3).
24. Skástrik
Skástrik má meðal annars nota í almennum brotum, sem deilingarmerki (deilingarskástrik), í táknun hraðaeininga og ýmissa annarra mælieininga, í númerum laga og þess háttar og til að tákna tvo eða fleiri mismunandi möguleika í texta.
Tillagan var samþykkt með 3/4 atkvæða.
25//5 = 5.
Ljóshraði er u.þ.b. 300.000 km/sek.
Höfð var hliðsjón af lögum nr. 2/1990 og auglýsingu nr. 132/1974.
Kæli-/hitabrúsi er til sölu í versluninni.
Þetta er já/nei-spurning.
Þér/ykkur er hér með boðið til veislu á laugardaginn kl. 20.
Í kössunum eru 20/50/100/500 einingar eftir atvikum.
Yfirleitt er hvorki haft bil á undan né eftir skástriki en bæði haft bil á undan og eftir því ef öðrum hvorum megin er orðasamband.
1/2
og/eða
London / New York
25. Spurningarmerki
Spurningarmerki er sett á eftir málsgrein (málsgreinarígildi) sem felur í sér beina spurningu. Ef tvær eða fleiri spurningar koma í röð má aðgreina þær með kommu eða samtengingu og setja spurningarmerki í lokin.
Hvað er í matinn?
„Hvenær kemur þú heim?“ spurði Jón.
Hvað?
Hvert ferðu, hvers vegna og hvenær kemurðu aftur?
Er það í fyrramálið sem hún fer eða á sunnudaginn?
Hafa ber í huga mun á beinum og óbeinum spurningum. Ekki er spurningarmerki á eftir óbeinni spurningu.
Hann spurði: „Hvar er skjalið?“ (bein spurning)
Hann spurði hvar skjalið væri. (óbein spurning)
26. Strik og bönd
Bandstrik er notað í margs konar tilvikum.
26.1.1 Bandstrik er notað í samsettum og afleiddum orðum þar sem fyrri liðir eru tölur, tákn eða bókstafir eða skammstafanir.
13-menningarnir, F-15-þota, x-ás, n-ta veldi BA-nemi, AA-fundur 26.1.2 Til að auðkenna óaðlöguð erlend orð í samsetningum frá
íslenskum orðhluta. chihuahua-hundur, downs-heilkenni, New York-ríki 26.1.3 Á milli orðliða í örnefnum og fleiri heitum þar sem síðari
liður er sérnafn.
Norður-Íshaf, Víga-Glúmur 26.1.4 Í ýmsum lýsingarorðum sem eru samsett úr tveimur eða fleiri
samtengdum en sjálfstæðum stofnum.
grísk-rómverskur 26.1.5 Bandstrik er stundum notað ef það horfir til skýrleika eða til að aðgreina orðliði í samsetningum sem annars féllu saman og yrðu torkennilegir. Einnig til að auðkenna andstæðu. Þar er einnig hægt að nota skástrik (sjá § 24.1).
no-leikur, eða-merki, sísegul-hverfijárnsmælitæki já-nei-spurning 26.1.6 Í laustengdum og oft óformlegum setningarliðasamsetningum.
munn við munn-aðferð
26.1.7 Til að afmarka beygingarendingu beygðs bókstafs eða tákns.
brottfall t-s
26.1.8 Í stað orðliða sem hafa verið teknir út til að komast hjá
endurtekningu.
ís- og sælgætiskaup
Hitt meginhlutverk bandstriks er að auðkenna þegar orðum er skipt milli lína (sjá § 33). Það kallast þá skiptistrik.
Millistrik er meðal annars notað með tölum og til að tákna talnabil en einnig í öðrum tilvikum. 26.2.1 Tengir saman tölur eða töluorð í ýmiss konar talnabilum og ártölum og stundum önnur orð. Hvorki er bil á undan né eftir slíku striki.
13–15 18.–21. ágúst 15. mars– (1555–eftir 1643) mars 2013–janúar 2014 Hún verður tvo–þrjá mánuði í burtu. Flugleiðin Reykjavík–Egilsstaðir –5 frost 26.2.2 Til að tákna frádrátt, í samsettum heitum stofnana og fyrirtækja, fyrirsögnum og til að afmarka liði í lista.
23 – 15 = 8 Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn Hveragerði – vin skáldanna 26.2.3 Í stað hefðbundinna þankastrika og nefnast þá stutt þankastrik (sjá § 26.3).
Á Íslandi – og hvergi nema á Íslandi – er þetta náttúrufyrirbæri að finna.
Mér líkaði vel við hann – oftast.
Þankastrik afmarka ýmis innskot eða viðauka. Stíll og merking ræður því í hverju tilviki hvort valin eru strik fremur en kommur eða svigar. Á Íslandi — og hvergi nema á Íslandi — er þetta náttúrufyrirbæri að finna.
Mér líkaði vel við hann — oftast.
27. Svigar og hornklofar
Sviga má setja utan um innskot sem sett eru til skýringar. Árið eftir (1928)
fluttist Guðrún suður.
Skip sem flytja eldfim efni skulu á daginn hafa uppi rautt flagg (merkjatákn
B) á framsiglu.
Svigar eru settir utan um valfrjálsa stafi. Veistu hvort mannsnafnið Auðun(n) var algengt fyrr á öldum? Hve ánægð(ur) ertu með þjónustu fyrirtækisins? Hornklofar eru settir utan um það sem skotið er inn í orðrétta tilvitnun. Hann sagði: „Ég óska kennaranum [þ.e. Halldóru] alls hins besta.“
Hægt er að setja hornklofa utan um úrfellingarpunkta, sérstaklega í orðréttum tilvitnunum (sjá § 31.2).
Í Egils sögu segir: „Ver þú vel við,“ segir Egill, „þótt eg bakist við eldinn […]“.
28. Tilvitnunarmerki (gæsalappir)
28.1 Tilvitnunarmerki Tilvitnunarmerki eru notuð til að afmarka beina ræðu í frásögn, orðréttar tilvitnanir, einstök orð og orðasambönd (meðal annars til að
gefa í skyn háð eða að málnotkunin sé ekki heppileg eða fullgild). Íslensk tilvitnunarmerki eru „svona“.
„Bara að ég hefði aldrei tekið lykilinn,“ hugsaði Pétur. Afi sagði: „Hertu þig nú, strákur.“ Fyrirtækið fékk sérstaka viðurkenningu fyrir „lofsvert framtak í umhverfismálum“. Hann sagði „strax“ en átti við „eftir klukkutíma“. Þessi „trausti vinur“ sveik mig illilega. Mér hefur aldrei fundist hann sérlega „sympatískur“. Ef bein ræða hefst eða endar á annarri beinni ræðu sem skotið er inn í hana skal ljúka hvorri þeirra með sínum tilvitnunarmerkjum. Þannig geta tvöföld tilvitnunarmerki verið í röð í lok setningar og er þá ekkert bil á milli þeirra.
Ásgeir mælti: „Afi sagði: „Hertu þig nú, strákur“
þegar hann vildi hvetja mig.“
Ásgeir mælti: „Afi sagði við mig: „Hertu þig nú.““
28.2 Einföld tilvitnunarmerki Einföld tilvitnunarmerki eru höfð utan um merkingu orða eða orðasambanda. Þau eru ‘ ’ eða ‚ ‘.
Orðið fákur merkir ‘hestur’. Orðið fákur merkir ‚hestur‘.
29. Tvípunktur
Tvípunktur er settur á undan beinni ræðu eða beinni tilvitnun ef á undan fara inngangsorð. Alexander hugsaði sig um stundarkorn og sagði svo: „Jú, þetta er rétt hjá þér.“ Í ritgerðinni stendur: „Bústaðurinn er frá 12. öld.“ Tvípunktur er settur á undan skýringu á eftir setningu sem væri málfræðilega sjálfstæð málsgrein þótt skýringunni væri sleppt. Tvípunkturinn tengir, sama merking og hugsun heldur áfram.
Loks var þetta ákveðið: Óskað verður eftir nauðasamningum hið fyrsta.
Tvípunktur er settur á undan upptalningu á eftir formlegum inngangsorðum.
Þetta vantar: hamar, nagla og skrúfur.
Meginviðfangsefni okkar eru: viðhald og endurbætur, styrking innviða og framtíðarsýn.
Notaður er upphafsstafur á eftir tvípunkti ef um er að ræða fullkomna, sjálfstæða málsgrein eða sérnafn.
Loks var þetta ákveðið: Óskað verður eftir nauðasamningum hið fyrsta.
Hún fór til þriggja landa: Noregs, Ítalíu og Frakklands.
Annars er ritaður lítill stafur (sjá einnig § 29.3).
Hann er seinheppinn eins og fyrri daginn: missir af flugvélinni og tefst í þrjá daga.
Hún festi kaup á þrenns konar ávöxtum: eplum, appelsínum og perum.
Tvípunkt má einnig nota til að tákna birta tíma, úrslit o.fl.
Kl. 2:45
Leikurinn fór 84:78
Einnig er hægt að nota punkt til að tákna tíma (sjá § 22.5).
30. Upphrópunarmerki
Upphrópunarmerki má setja á eftir einstökum orðum eða
málsgreinum sem fela í sér upphrópun sem á að koma til skila
fögnuði, skipun, kveðju, fyrirlitningu, háði, undrun og fleira.
Þvílík heppni!
Upp með hendur!
Góðir áheyrendur!
Svei!
Hún borðaði tómatsósu (!) með grásleppunni.
Yfirleitt er betra að láta spurningar sem eru í raun upphrópanir
enda á upphrópunarmerki en spurningarmerki. Ekki er mælt með því
að láta setningu enda bæði á upphrópunarmerki og
spurningarmerki:
Hvernig gátuð þið gert þetta!
31. Úrfellingarmerki, úrfellingarpunktar
Úrfellingarmerki (’) sýnir annaðhvort að felldur hafi verið brott stafur eða stafir eða að fella eigi niður í framburði stafi sem ritaðir eru.
Það átt’ ekki við ’ann að rjúfa sín heit.
Ólafur fæddist ’87.
’68-kynslóðin vildi láta til sín taka.
Horn skella’ á nösum og hnútur fljúga’ um borð.
Úrfellingarpunktar, sem eru sjálfstætt tákn (…), eru notaðir til þess að sýna að texti hafi verið felldur brott eða til að tákna hik, eitthvað sem er ólokið, óljóst eða gefið í skyn. Á undan úrfellingarpunktum er stafbil ef næst fyrir framan þá kemur heilt orð. Stafbil er ekki haft aftan við úrfellingarpunkta ef önnur greinarmerki fara á eftir þeim.
Margir … lögðu sitt af mörkum.
Ævintýri enda oft á formúlubundinn hátt: Köttur úti í mýri …
Áttu við …, sagði pabbi og svo þagnaði hann líka.
Er hann nokkuð …?
Egill bað matseljuna verða vel við „… þótt eg bakist við eldinn og mýkjumst vér við um rúmin“.
Í Egils sögu segir: „Ver þú vel við,“ segir Egill, „þótt eg bakist við eldinn …“.
Ef felldur er niður hluti orðs er ekkert bil haft á undan úrfellingarpunktum.
Hver í andsk… var þetta eiginlega?
Fyrst varð ég að sópa og mjó… nei, gefa hænsnunum.
Hægt er að afmarka úrfellingarpunkta enn betur með því að hafa hornklofa utan um þá (sjá § 27.2). Þetta er sérstaklega gert í beinum tilvitnunum sem eru styttar.
Ævintýri enda oft á formúlubundinn hátt: Köttur úti í mýri […]
Í Egils sögu segir: „Ver þú vel við,“ segir Egill, „þótt eg bakist við eldinn […]“.
32. Afstaða tilvitnunarmerkja og sviga til annarra greinarmerkja
Punktar, kommur, spurningarmerki og upphrópunarmerki eru sett á undan seinna tilvitnunarmerki ef þau auðkenna heila málsgrein
eða tilsvarandi.
Guðmundur sagði: „Börnin eiga að koma heim.“
„Ég held,“ sagði hún, „að þetta geti gengið.“
„Hver er þetta?“
„Hvað þá!“
Punktar, kommur, spurningarmerki og upphrópunarmerki eru sett á eftir seinna tilvitnunarmerki ef þau auðkenna aðeins hluta
málsgreinarinnar.
Hann sagði „strax“ en átti við „eftir klukkutíma“.
Eftir þetta „féll hann niður örendur og er þar með úr sögunni“.
Punktar, spurningarmerki og upphrópunarmerki eru sett á undan seinni sviga (þ.e. innan sviga) ef svigarnir afmarka heila málsgrein eða tilsvarandi. Einnig geta spurningarmerki og upphrópunarmerki komið innan sviga ef þau eiga aðeins við það sem er í svigunum en ekki alla málsgreinina.
Þá reis deila milli bænda og sjómanna. (Verkamenn tóku ekki afstöðu.)
Þá reis deila milli bænda og sjómanna. (Hver var afstaða verkamanna?)
Þá reis deila milli búenda (svo!) og sjómanna.
Punktar (kommur, spurningarmerki og upphrópunarmerki) eru sett á eftir seinni sviga (þ.e. utan sviga) ef svigarnir afmarka aðeins hluta málsgreinarinnar.
Hún sagðist ætla að koma fljótt aftur (í maí eða júní).
Semikommur eru hafðar aftan við gæsalappir og sviga.
Hann sagði: „Ég tók ekki veskið“; enginn trúði honum. Þingmaðurinn fór þá með gamanvísur (ekki í fyrsta sinn); hló þá þingheimur.
33. Orðskipting
33.1 Samsett orð Best fer á því að skipta samsettum orðum og forskeyttum um samskeyti (stofnamót) og fleirsamsettum um aðalsamskeyti. Verði því ekki við komið má skipta orði um aukasamskeyti eða skipta síðasta orðhlutanum eins og um ósamsett orð væri að ræða.
borð-dúkar for-maður gatna-mót dýraverndunar-hópur vegavinnu-skúr dýra-verndunarhópur vega-vinnuskúr dýraverndunarhóp-ur borðdúk-ar Sama gildir um viðskeytt orð ef viðskeytið er í málvitundinni sjálfstæð heild og tökuorð, lengri en tvö atkvæði, sem túlkuð eru sem samsett orð (sýndarsamsetningar).
sann-leikur list-rænn strák-lingur abba-dís krókó-díll pre-dika víta-mín 33.2 Ósamsett orð Skipta skal ósamsettum orðum þannig að síðari hluti hefjist á sérhljóði endingar, greinis eða viðskeytis.
hundarn-ir vænst-ur manns-ins skip-un Síðari hlutinn má þó ekki vera aðeins einn stafur (ekki: karf-a). Fyrri hluti orðskiptingar getur hins vegar verið aðeins einn
stafur, til dæmis á-stríða, í-hlut-un, ó-lán.